10.09.2011 20:31
Vertíðin 1951, aflabrögð
Fjórir bátar stunduðu veiðar frá Eyrarbakka vertíðina 1951: "Ægir", "Gullfoss", "Pipp" og "Mímir". Þeir stunduðu línuveiðar framan af vertíð, en síðan með þorskanet. Vertíð hófst 27. janúar, en lauk 7. maí. Tíðarfar var hagstætt til sjósóknar, en afli fremur tregur. Bezt reyndist veiði í marzmánuði, en lökust í febrúar. Mestur afli í róðri varð 4. apríl, 11.100 kg. Hjá þeim bát, er oftast fór á sjó, urðu 53 róðrar, er skiptast þannig eftir mánuðum: Febrúar 6, marz 21, apríl 22 og 4 í maí. Aflahæsti bátur yfir vertíðina var v/b Pipp, 17 rúml. að stærð, eigandi hlutafélagið Óðinn á Eyrarbakka. Hann aflaði 138 smálestir í 53 róðrum og 12 544 lítra af lifur. Meðalafli hans varð um 2600 kg í róðri. Formaður á Pipp var Sverrir Bjarnfinnsson, þá 30 ára gamall, á sinni fyrstu vertíð sem formaður fyrir bát. - Heildaraflinn í verstöðinni varð 380 smál. af fiski og 35 þús. l. lifur. Megnið af aflanum var fryst í Hraðfrystistöð Eyrarbakka og lítið eitt saltað. Hraðfrystistöðin keypti gotuna fyrir kr. 1.30 kg.
Heimildarmaður: Ólafur Bjarnason, Eyrarbakka fyrir t.r. Ægi.