24.07.2011 22:57

Brim reynir enginn maður að búa til

Eitt af staðareinkennum Eyrarbakka er brimið.  Fyrirbærið kemur oft við sögu sem ógnvaldur og skelfir í Brim reynir enginn að búa tilfrásögnum Eyrbeskra sjómanna áður fyrr, enda ekki að ástæðu lausu, því margur sjómaðurinn átti ekki afturkvæmt úr hildarleik þeim sem ægir kunni að bjóða til. Frá vör til lífsbjargar var oft torsótt leið þegar brimið lét á sér kræla.  Sumir formenn fyrri tíma voru gjarnir á að ýta knerri sínum úr vör nokkru fyrr en sundbjart var orðið til að ná bestu fiskimiðumnum á undan öðrum. Lögðu þeir eyrað í sandinn og mátu undirhljóðið. Mundi  óhætt að róa fyrir dagmál ef ei var undirhljóð, annars þótti vissara að bíða skímunar svo sjá mætti hvernig umhorfs væri. Brimhljóðin hétu ýmist "Boðaskellir, Undaniður eða skerjaskrölt" . Brimið sjálft átti sér all mörg nöfn, allt eftir gerð þess og tegund. Þá töluðu menn um að væri "Rosabrim, Hornriðabrim, Spítingur, Strokkbrim, en venjulegt brim var kallað "Vanabrim".  Sundasjór var það kallað þegar brimið var skarðalaust eða jafnjaðra. Þá var talað um "Flóðglenning" eða "Króköldubrim" þegar það fellur af landsuðri og útsuðri í senn. "Langarma sjóir" þegar brimið fellur langan veg í einu falli. Þegar brim er í vexti þá er síðasta aldan í hverri lotu stæðst, en sé sjór í afdáningi er síðasta aldan minnst.

Fjölmörg skáld hafa ort sín dýrustu ljóð eftir að hafa horft á brimið gnýja, svo sem kvæði Maríusar Ólafssonar  "Við hafið er hugur vor bundinn" .

Fátt er stórfenglegra á að horfa en ólgandi norðanáttar brim þegar óbrotnar  öldur  rísa hátt til himins á 70-80 m dýp og skjóta síðan upp hvítum faldi þegar þær koma  á grynningarnar sem vindurinn feykir  í glitrandi slóða.  En eins og orð Jóns Trausta "Brim reynir enginn maður að búa til" því verða menn að bíða eftir að veðurguðunum þóknast að gera veltibrim til að fá séð þetta fyrirbæri í öllu sínu veldi. Fyrsta brim þessa sumars gæti verið að vænta um miðja vikuna, en á þriðjudag tekur að hvessa af SA og síðan með sunnanátt.

Flettingar í dag: 1591
Gestir í dag: 254
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261881
Samtals gestir: 33881
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:21:11