20.07.2011 23:03
Aðventuflóðið 1977
Það hafði verið spáð stormi eða ofsaveðri við suðurströndina 14 desember 1977 og sjávarstaðan var síður en svo hagstæð. Háflóð yrði þennan dag um kl 8 um morguninn þá er veðrið yrði hvað verst og að auki var mesta stórstreymi síðustu 20 ára deginum áður og því enn afar hásjávað á morgunflóðinu. En vegna reynslu sinnar af stormflóðinu 1975 ákváðu útgerðarmenn á Bakkanum að fara með alla báta sína úr höfninni og fóru þeir flestir til Þorlákshafnar áður en veðrið brast á. Lægðin sem fór yfir suðurströndina var 955 mb og fylgdi henni fárviðri. Sumstaðar mældist vindhraðinn 119 hnútar eða sem svarar um 61 m/s, en til samanburðar eru 12 gömul vindstig (fárviðri) ca 35 m/s.
Á stokkseyri töldu menn sig hólpna enda var þar svo til ekkert tjón í flóðinu 1975 þegar einn mesti sjór siðari tíma braut hafnarmannvirki á Eyrarbakka. En um kl. 9 þennan illviðrismorgun 1977 í ofboðslegu brimróti gekk mikill sjór á land á Stokkseyri. Stokkseyrarbátarnir, Jósep Geir, Vigfús Þórðarson og Hásteinn höfnuðu upp í fjöru og stórskemdust. Á Stokkseyri lá einnig Bakkavíkin frá Eyrarbakka og lagðist hún upp á bryggju og sat þar eftir kjölrétt. Þetta voru allt 50-60 tonna eikarbátar. Þá stórskemdust sjóvarnargarðar á Stokkseyri þegar sjórinn ruddi þeim sumumstaðar burt á stórum köflum og mikill sjór flaut yfir þorpið, eiðilagði vegi og bar með sér sand og þara.
Á Eyrarbakka var tjónið minna, Sjóvarnargarðurinn hélt víðast en skörð komu í hann á nokkrum stöðum, einkum fyrir Skúmstaðarlandi og gekk talsverður sjór þar inn um skörðin og hlið sem á honum voru, en annað tjón var óverulegra, nema þá helst foktjón og brotnar rúður. Í þessu veðri og stórsjó var einnig mikið tjón í Grindavík og víðar meðfram suðurströndinni.
Ekki hafa komið sambærileg sjávarflóð síðan 1990 en eftir það voru reistir nýir og öflugir sjóvarnargarðar fyrir báðum þorpum, og um þessar mundir er verið að ljúka við að tengja þessi miklu mannvirki saman. Verður garðurinn þá nær samfeldur á milli þorpana.
Sjá einnig: Lognflóðið 1916 Stormflóðið 1990 og flóðaannál á Eyrarbakka.