13.07.2011 23:44

Lognið á undan stormflóðinu 1975

Sólborg sokkin
Sunnudaginn 2. nóvember 1975 var skaplegasta veður og blanka logn en þokuloft  mestan hluta dagsins og þegar tók að þykkna frekar  í lofti er á leið átti enginn von á öðru en venjulegri  rigningu. Regnið var drjúgt en ekki bar báru í lónin lengi vel  fram eftir kvöldi. Þeir sem fylgst höfðu með loftvoginni  síðla dags máttu þó sjá að eitthvað óvenjulegt var í aðsigi.  Djúp lægð (952.4 mb.) var að þokast norðaustur yfir vestanvert landið. Líklega mundann hvessa og e.t.v. var uggur í einhverjum vegna stórstreymis síðar um nóttina þó veðurspáin væri ekkert sérstaklega ljót.

Flest ungmenni þorpsins voru saman komin á kvikmyndasýningu sem haldin var í Brimveri. Verið var að sýna Óperuna "Jesus Christ Superstar" en  Þegar kom að atriðinu "Söngur Herodesar" fór rafmagnið af. Skömmu fyrir kl. 22 brast á suðaustan rok án nokkurs fyrirvara.  Á þeim tíma voru vindmælingar ófullkomnar, en miðað við að ljósastarar kubbuðust víðsvegar sundur eins og eldspítur má ætla að vindhraðinn hafi a.m.k verið yfir 30 m/s.

Á þessum tíma voru ljósastaurar úr tré og margir komnir til ára sinna og lágu raflínur í loftinu á milli þeirra. Brotnir staurar og raflínur tepptu götur þorpsins svo ekki var fært akandi né gangandi á vesturbakkanum.  Ungmennunum í  Brimveri var boðið að halda til í húsinu en enginn þáði og héldu krakkarnir til síns heima í smá hópum. Í mesta ævintýrinu lentu þau sem bjuggu á vesturbakkanum, en fyrir þeim var aðeins ein leið opin, en það var meðfram ströndinni og komust flest þá leið við barning mikinn. Einn piltur króaðist þó inni á milli fallandi raflína. Mátti hann bíða þess góða stund að Jóakim rafvirki kæmi og leysti sig úr prísundinni.

Eftir miðnætti lögðust saman öflin þrjú sem ógnuðu fiskiskipaflota Eyrbekkinga hvað mest.  Úthafsaldan sem átti rætur djúpt suður í hafi óx stórum undan rokinu, miðja djúpu lægðarinnar var tiltölulega nærri og dró yfirborð sjávar upp um hálfan metra að auki, Þá var stórstreymt síðla nætur og sjávarborð því hærra sem því nemur, (ca 3m). Má því áætla að ölduþrýstingur, stórstreymi og lágþrýstingur hafi lyft sjávarborðinu upp fyrir 4m. Fram eftir nóttu reyndu menn að binda bátanna traustari böndum, en brátt varð engum manni vært á bryggjunni sem var eins og smá eyja í stórsjónum og mannhæða háar öldur færðu hana á kaf hvað eftir annað. Að endingu fór svo að allir bátar sem í höfn voru gjör eiðilögðust. Sólborg sem var 84 tn stálbátur endasentist upp á hafnargarðinn en seig svo með afturendann á kaf í sjó. Skúli Fógeti 27 tonn og Sleipnir 11 tonn skoluðust yfir hafnargarðinn og mölbrotnuðu. Ekki voru aðrir bátar í höfn þessa nótt, en Bakkaflotinn hafði nú minkað niður í 4 báta.

SalthúsiðBrúin á hafnargarðinum hvarf og var hún aldrei endurbyggð. Þá brotnaði steyptur veggur á salthúsinu við Hraðfrystihúsið og tunnugeymsluskúr sem þar var nærri tókst á loft í heilu lagi og hafnaði inn á bletti hjá Sandpríði, nokkur hundruð metra í burtu. Í veðrinu kom einnig rof í gömlu sjógarðana  og vegur sem lá frá barnaskólanum að Gamla Hrauni sunnan sjógarðs gjöreiðilagðist. Vatnsleiðslur sködduðust og holræsi stífluðust af sandi. Þá komst sjór í kjallara nokkurra húsa og urðu olíukynditæki þeirra óvirk. Í þessu veðri hvarf nærfellt allur sandur úr fjörunni svo berar klappir blöstu við þar sem menn höfðu áður ræktað kartöflur í ára raðir. Talið er að tjónið hafi numið 100 milj. á þávirði.

Flettingar í dag: 2309
Gestir í dag: 198
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 178
Samtals flettingar: 266636
Samtals gestir: 34335
Tölur uppfærðar: 24.11.2024 14:07:15