17.06.2011 17:16
Tómthúsfólk á 18 öld
Árið 1703 voru 652 íbúar á Eyrarbakka og Stokkseyri sem þá var einn hreppur. Þar af voru bændur og hjáleigumenn 70 talsins, en ómagar og þurfalingar 156. Þannig voru hlutfallslega margir á sveitastyrk fram eftir öldinni. Tómthúsfólk, eða Þurrabúðarmenn var sá hópur landlausra húsmanna kallaður sem áttu lítið annað en hróflatildrið sem það hlóð úr grjóti og torfi með leyfi landeigenda og lifði mestmegnis af sveitastyrknum, ölmusu og öðru því sem til féll af úr hendi þeirra efnameiri.
Árið 1756 bjuggu í Skúmstaðahverfi Ólafur Jónsson tómthúsmaður við heilsulasna konu og kröpp kjör. Þar bjó einnig Aldís Þorkellsdóttir við tómthús og eitt barn. Margrét Oddsdóttir tómthúskona var þá háöldruð og bjó ásamt vanfæri dóttur í tómthúsi. Jón Brandsson var einnig tómthúsmaður í Skúmstaðahverfi, ásamt konu og tveim börnum. Tómthúsmenn í Háeyrarhverfi voru á þessum tíma, þau Erlendur Þórðarsson með konu og tvö börn. Jón Ólafsson var sagður stór og sterkur, en hann bjó þar í tómthúsi ásamt konu sinni og tveim börnum. Þorsteinn Einarsson var þá áttræður og bjó í tómthúsi með konu sinni og bróðurbarni hennar. Í Hraunshverfi bjuggu við tómthús, Jón Jónsson smiður kona hans og fjögur börn. Jón dauði svokallaður bjó þar í tómthúsi með konu og tvö börn. Þá voru þeir Bauga-Guðmundur og Páll Hafliðason taldir letingjar mestir hér um slóðir. Síðasti tómthúsmaðurinn á Bakknanum var Berþór Jónsson (1875-1952) eða Bergur dáti eins og hann var kallaður, en hann bjó að Grímsstöðum.
Heimild: Saga Stokkseyrar