09.06.2011 23:23
Kaldar júnínætur senn á enda
Það hefur ekki farið framhjá neinum að heimskautaloftslag ríkir á landinu þessi misserin. Grasið sprettur vart og allur gróður í hægagangi, flugur sjást ekki og köngulærnar liggja í dvala. Margar fuglategundir eru í basli með varpið vegna kuldanna. Sumar nætur í byrjun mánaðarins fór hitinn niður fyrir frostmark og allt að -3°C í eitt skipti hér á Bakkanum og sumstaðar meira austan Þjóssár. Einhver éljagangur var öðru hverju í stað hefðbundinna sumarskúra. Langvarandi vorkuldar koma stöku sinnum þó nú sé orðið langt síðan að það gerðist síðast (1973), en vorkuldinn stendur þá oft fram yfir hvítasunnu. En nú eru veðurspámenn farnir að sjá fyrir endann á kuldaskeiðinu og spá hægt hlýnandi veðri nú um helgina.