31.05.2011 22:02
Þannig var tíðin
Bakkabúar tóku á móti vorinu þann 1. maí þó snjór væri yfir öllu vestan fjalla. Vonir um skjótan sumarhita lá í loftinu þegar kvikasilfrið í hitamælinum teygði sig yfir 15 stigin og þann 7. var 17 stigum náð og hélst sú landsins besta tíð um stundarsakir og gróðurinn hélt af stað í sigurferð upp úr sverðinum. Þurrviðrið sem lék um Flóann fékk bændur á bestu bæjum til að leggjast á kné og biðja almættið um hressilega rigningu. Eitthvað hafði þó veðurguðum þótt frekleg bónin og í stað vætu sendu þeir landsmönnum kaldar kveðjur og naprar nætur, svo og jafnvel frost. Til að bæta gráu ofan á svart mátti Flóinn ekki skarta sínum fagra fjallahring um nokkra hríð fyrir öskumóðu austan úr Grímskötlum, en um síðir var loftið hreinsað með norðaustan fjúkanda og á fjallstoppum glitti í nýfallna mjöll. Blessuðum gróðrinum var þó meira um nepjuna en öskumorinn og virðist nú helst bíða átekta, þar til hin kalda krumla almættisins sleppir sínu kverkataki. Nú er komið suðaustan kalsarigning en vonir um tveggjastafa hitatölur ættu að fara batnandi með hverjum deginum úr þessu.