25.05.2011 22:19
Bifreiðastjórar og bílavegir
Fyrstu vegir frá Eyrarbakka voru gerðir fyrir hestvagna svo hægarar yrði um heyflutninga ofan að engjum. "Álfstétt" heitir vegspotti á Eyrarbakka og sagður einn elsti vegur í Árnessýslu. "Bárðarbrú" sem þó er ekki "brú" í nútíma merkingu, heldur upphaflega púkkaður mjór vegur yfir móa og mýrlendi er lá áður milli kirkju og Húsins upp á engjalöndin vestur undan Sólvang, en þennan veg gerði Bárður Nikulásson um 1880 og á svipuðum tíma var "Nesbrú" byggð, en það var hlaðin göngubrú á leiðinni frá Óseyrarnesi upp mýrarnar, er lá alla leið upp í Kaldaðarneshverfi. Hluti Háeyrarvegar var lagður á svipuðum tíma, en fyrir því stóð Guðmundur Ísleifsson á Háeyri. Lagning Eyrarbakkavegar frá Ölfusárbrú hófst 1898 undir stjórn Erlends Zakaríassonar, en þá voru hestvagnar að verða helsta flutningatækið. Sumarið 1913 komu fyrstu bílarnir akandi þennan veg frá Reykjavík, en það voru Ford-blæjubílar og lítt áræðanlegir til brúks. Fyrstu bifreiðastjórar á Eyrarbakka sem héldu uppi samgöngum til Reykjavíkur voru 1918: Einar Jónsson í Túni, Magnús Oddson í Regin og Steingrímur Gunnarsson á strönd. Áttu þeir saman einn bíl frá landssjóði og óku til skiptis með póst og farþega. Árið 1923 var Bifreiðastöð Eyrarbakka stofnuð, en að henni stóðu Ólafur Helgason kaupmaður, Sigurður Óli Ólafsson, Einar Einarsson á Grund (Stokkseyri), Steingrímur Gunnarsson, Jón Magnússon kaupmaður (Stk) og Kristinn Grímsson á Strönd. Bifreiðastöð Eyrarbakka var lögð niður 1925 þegar bifreiðastöð Steindórs fékk sérleyfi milli Eyrarbakka og Reykjavíkur. Á árunum 1930-1940 voru Eyrbekkingarnir Baldur og Guðmundur Sigurðssynir bífreiðastjórar hjá Steindóri (Steindór Einarsson).