17.02.2011 00:10

Siggi-fjórði

Vesturbúð og höfninKona ein á Bakkanum hafði haft nokkra vinnumenn, hvern á eftir öðrum og hétu þeir allir Sigurður. Einn þeirra var sá fjórði í röðinni og hlaut hann viðurnefnið "Siggi-fjórði". Hans lífsstarf varð síðan að salta og pækla lax í Vesturbúð, en laxinn var þá verðmætasta útflutningsvara verslunarinnar. Hann fékk árlega sérstaka viðurkenningu fyrir starf sitt, enda vandvirkur mjög og fagmannslegur. Siggi-fjórði átti fagurgerða græna tunnu (4ra potta) með svörtum gjörðum. Í tunnu þessa fékk hann bónusinn sem greiddur var í góðu brennivíni, þann daginn sem skipið sigldi heilu og höldnu út úr Bússusundi með laxinn innbyrðis, en svo hafði um samist.

Siggi-fjórði vaknaði eldsnemma daginn þann, er skipið átti að fara. Með græna kútinn undir hendinni stóð hann í sjógarðshliði og vonaði að um háflæðið mundi skútan losa festar og sigla út sundið með laxinn góða. En eitthvað var "Ægir gamli" kenjóttur þessa dagana og gerði Sigurði nokkurn hrekk. Skömmu fyrir flóð brast hann á með brimróti, svo ekki lagði skipið út þennan daginn né heldur hina næstu. Siggi leitaði fregna hjá hafnsögumanninum, en hann gat engu lofað um hina langþráðu stund. Siggi var þó sífelt á höttunum framm í hliði, til að sjá hvað sjónum leið og bað fyrir sjálfum sér, skipinu og laxinum og jafnvel til vonar og vara, bað hann fyrir Lefolii gamla líka.

Svo rann sá dagur upp að skipið fékk losað festar. Lóðs og hásetar voru komnir um borð og lagt var á sundið þó svo sjór væri enn nokkuð ókyrr. Siggi-fjórði stóð á sínum stað með öndina í hálsinum, blýskorðaður við vegginn frammi í sjógarðshliði með kútinn undir hendinni og mændi á skipið, en mælti ekki orð af vörum uns skútan skreið fyrir ysta boðann. Sagði þá við sjálfan sig, en hálf hátt svo aðrir heyrðu-"Gussé lof, þa'slappann". Hljóp hann síðan sem fætur toguðu fram í búð og fékk sína umbun úti lagða, s.s. gott brennivín.

Heimild: Austantórur 2

Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00