13.02.2011 23:45

Gömul veðurmerki

Hér mun getið algengara veðurmerkja og veðurheita sem tíðkuðust á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrir aldamótin 1900:

Útræna: Er vestanstæð hafgola og ber mest á henni á heitum dögum að sumri (Sólfarsvindar), dragast þá ský yfir austurfjöllin og nefnast þau "Útrænuský". Útrænan er vægari í smástreymi, en oft köld. Þá má vænta þerris góðan, en áfalls að nóttu þegar lyngt er orðið. Áfall að nóttu var talið boða langvarandi þurk og norðanátt.

Bræla: Hvöss útræna (suðvestannátt). Hvítnar þá í báru ("Það er farið að skjóta fuglsbringum") og skúrir færast yfir Kambana , Fljótshlíð og Þórsmörk. Þá má vænta dembuskúra í neðri Flóa.

Landnyrðingur: (Land-norðanátt) Ef skýjastrók setur til norðurs frá Heklu og Eyjafjallajökli er þurkur í vændum, (kuldaþræsingur). Ef skýjastrókinn leggur til suðurs, þá er úrkomu að vænta.

Austantórur: Oft á haustin í þurrviðri þekja háir hvítir skýjabólstrar austurfjöllin með úrkomu undir Eyjafjöllum og er það kallað "Austantórur", en það er undanfari hellirigningar um allt suðurlands undirlendið með SA átt. Þá er kominn "Hornriði"

Hornriði: Suðaustan strekkingur og rigningartíð.

Fjallasperringur: Stíf norðaustanátt. Ef snjóar í vesturfjöllin á undan austurfjöllunum þá er að vænta mildari veturs.

Stálbellir: Skýjaklakkar með lögun líkt og gosstrókur sem ber við heiðríkju í SV boðar hrakviðri og harðindi. Venjulegir skýjaklakkar út við hafsbrún veit á úrkomu.

Svartaþykkni: Þykk skýjahula. Sjáist hún í austri eða suðaustri, boðar það hláku. Sé "Svartaþykkni" í suðri frá Vestmannaeyjum og að Hlíðartá með andvara af NA og "Hrein fjöll" (Hiðríkja yfir Heklu og norður fyrir til vesturfjalla) var það talið fyrirboði fárvirðis innan fárra stunda.

Bakki: Lágur þokubakki milli Eyjafjallajökuls og Vestmannaeyja fyrri hluta vetrar, boðar brim.

Blikur: Þunn skýjaslæða, (undanfari lægða). Sé blikan með klósiga (ský eins og klær) sem sveigjast saman frá SV til NA boðar það hvassviðri af suðaustri, enda leist mönnum þá ekki á blikuna.

Hafgall: Regnbogalitaður glampi við hafsbrún skömmu fyrir sólarlag, veit á betra veður og þurrk.

Rosabaugur: Bjartur baugur um túngl á vetrum veit á illviðri.


Heimild: Austantórur 1.

Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00