04.02.2011 01:05

Ólafsvíkurskipið

Þessi mynd er af "Hertu" á strandstað á Eyrarbakka"Fru Elisabet" var tvímastra seglskip, eða svokallað "briggskip" og var eigandi og skipstjóri þess Fredrik Feddersen. Vorið 1801 var skipið hlaðið matvörum og öðrum varningi  frá Johannes Kellnes kaupmanni, við höfnina í Altona (Hamborg) og sigldi svo þaðan fullfermt áleiðis til Ólafsvíkur, en áður með viðkomu á Eyrarbakka.

Skipið lagðist fyrir akkerum fyrir utan Bússusund á Eyrarbakka að kvöldi 20.júlí, en þá var veltubrim svo skipið gat ekki athafnað sig inn sundið og beið því átekta. Briminu slotaði ekkert daginn eftir og þann 22. júli brast á stormur og slitnuðu þá festar skipsinns. Þegar skipið tók að reka, gerði áhöfnin þau mistök að yfirgefa skútuna og fóru í skipsbátinn. Aðeins sást til þeirra af Bakkanum stutta stund og voru þeir þá fyrir utan brimgarðinn. Skútan hraktist fyrst á sker en dreif svo að landi. Þegar heimamenn komu á strandstað var skútan mannlaus, en fljótlega barst eitthvað af líkum skipverja á land.

Lambertsen kaupmaður á Eyrarbakka stýrði björgunaraðgerðum á strandstað og náðist mestmegnis af varningi úr skipinu en matföng (korn og mjöl) eiðilögðust mestmegnis af sjó. Allt strandgóss sem til náðist var selt á uppboði.


Stykkishólmsskipið:

Samskonar atvik átti sér stað árið 1806 þegar "Anna"  lítið verslunarseglskip (galeiða) strandaði á Hafnarskeiði við Þorlákshöfn 18. maí það ár. Skipstjórinn Kristinn Andersen Knöe hélt til hafs frá Danmörku 12. apríl 1806 áleiðis til Stykkishólms með viðkomu á Eyrarbakka, og lagði úti fyrir sundum vegna brims, en sennilega hafa akkeri ekki náð festu og dreif skipið upp í Skötubót. Allir bjöguðust í land nema kaupmaðurinn í Stykkishólmi Peter Holter, og var hann jarðsettur á Hjalla í Ölfusi.

Heimild: Saga Eyrarbakka

Flettingar í dag: 2087
Gestir í dag: 189
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 178
Samtals flettingar: 266414
Samtals gestir: 34326
Tölur uppfærðar: 24.11.2024 10:12:44