10.12.2010 00:14
Siglingar um sundin
Sundin á Eyrarbakka eru einkum þrjú. Þ.e. "Rifsós" sem er austast (Mundakotsvarða). það var oft ófært þegar lágsjávað var, og einhver alda úti fyrir. Næst er sund fyrir vestan þorpið, sem nefnist "Einarshafnarsund" og oft var notað sem þrautalending á Eyrarbakka, en þar urðu eigi að síður sjóslys, þegar mjög lágsjávað var, eða undir og um stórstraumsfjöru. Þar fyrir vestan er sund er heitir "Bússa" eða "Bússusund", (Sundvörðurnar vestast) en var lítið notað fyrir fiskibáta, nema ef sérstaklega stóð á ládeyðu, því ef brim var, gekk hafaldan að nokkru leyti á það flatt eða yfir það, en þetta sund er einna dýpst og breiðast, og stefna þess þannig, að aldan gekk yfir það. Það var notað til innsiglingar verslunarskipana (Skonnorturnar voru kallaðar "Bússur") meðan þau komu til Eyrarbakka, og aldrei nema að brimlaus sjór væri. Eftir að vélbátaútgerð hófst var það notað í meira mæli og urðu þar stundum skæð sjóslys.
Heimild: Sigurður Þorsteinsson í Sjómannablaðinu Víkingi 1.tbl.1950