15.11.2010 01:37
Töfradrykkurinn
Það hefur sennilega verið árið 1765 sem Sunnlendingar gátu keypt sér te í fyrsta skipti, en það ár flutti Eyrarbakkaverslun inn 20 kíló (40 pund) af telaufi, en árið 1762 hafði verið flutt inn lítið eitt af tei á Faxaflóahafnir. Sá eðaldrykkur sem Sunnlendingar urðu sólgnastir í, kaffi var flutt inn 1791, tæp 50 kíló og fór innflutningur á kaffibaunum hægt stigvaxandi upp frá því. Það hafa þó aðeins verið prófastar, verslunarstjórar og sýslumenn sem ánetjuðust kaffinu, því þessi drykkur var nær alveg óþekktur meðal almennings fram að aldamótunum 1800 en þá fóru bændur að kaupa kaffi til hátíðarbrigða. Var þá svo lítið drukkið af kaffi að 1 kg dugði alþýðuheimili í eitt ár. Hálfri öld síðar var almenn kaffineysla komin í 100 kg á ári á venjulegu heimili, sem voru að vísu mannmörg á þeim árum, en í dag mætti áætla að kaffineysla íslendinga sé svipuð að meðaltali á heimili árlega. Árið 1855 var flutt inn 15.5 tonn af kaffi á Eyrarbakka og árið 1859 kemur kaffibætirinn (Export) til sögunar og er Eyrarbakkaverslun sú eina sem flytur hann inn fyrst í stað. Um miðja 19.öld er kaffi daglega á borðum á næsta öllum heimilum á Eyrarbakka. Þá var farið að nota rjóma út í kaffið og kom það víða niður á smjörframleiðslu, þar sem eftirspurn eftir rjómanum jókst mjög eftir því sem kaffidrykkja varð almennari. Upp úr miðri 19. öld fór að bera á ýmsu framandi kryddi og rúsínum og árið 1866 var sennilega boðið upp á hrísgrjónagraut í fyrsta skipti á Eyrarbakka, en það ár hóf Eyrarbakkaverslun innfluttning á hrísgrjónum. Um svipað leiti og te og kaffinnflutningurinn hófst kom einnig sykurinn í búðirnar og hefur hann verið óaðskiljanlegur þessum töfradrykkjum síðan.
Heimild: Fálkinn 17.árg. 1944