08.11.2010 23:52
Gæðingurinn Goti
Guðmundur Thorgrímsen verslunarstjóri á Eyrarbakka átti um sína daga marga og góða reiðhesta og keypti þá jafnvel langt að. Einn þeirra var grár gæðingur er Goti hét og ættaður norðan úr Skagafirði. En hestinn átti áður Ari Arasen læknir á Flugumýri. Goti var mikill gæðagripur og vitrastur allra hesta og hafði Thorgrímsen á honum miklar mætur.
Eitt sinn ætlaði Thorgrímssen að ríða til Reykjavíkur og var þá Goti sóttur og rekinn heim ásamt mörgum hestum, en þá kom í ljós að hann hafði misstigið sig og var drag haltur. Hann var því ekki notaður í ferðina, heldur sleppt aftur í hagann. Öðru sinni er Thorgrímsen ætlar til Reykjavíkur var Goti sóttur með hestunum, en er þá aftur orðinn draghaltur án þess að sjá mætti einhverja ástæðu fyrir heltunni og var Gota þá sleppt í hagann eins og í fyrra sinnið. Hálfri stund eftir að menn voru farnir var Goti orðinn alveg heill. Í þriðja sinnið sem verslunarstjórinn hugði til Reykjavíkur fór á sömu lund, klárinn var drag haltur og stakk við fót, en nú sá Thorgrímsen við honum, því hann grunaði klárinn um tilraun til skrópa, og tók hann því með engu að síður. Það reindist líka svo, því hálftíma síðar var Gota batnað af skrópasýkinni og stakk hann ekki lengur við fót. Í hvert sinn þegar Goti var sóttur með mörgum hestum, vissi hann að langferð væri fyrir höndum og tók þá til bragðs að leika sig haltann til að sleppa við ferðina.
Heimild: Oscar Clausen-Vitrir hestar, lesb.mbl 24.09.1939