15.10.2010 00:54
Þeir sögðu nei við örmagna þjóð
Starfsgreinasambandið hefur ályktað gegn almennri skuldaniðurfellingu heimilanna í landinu og þar með hafa vekalýðsfélögin á landsbyggðinni tekið forustu um að slökkva síðasta vonarneista skuldugrar þjóðar. Verkalýðshreifingin er aðili að öflugustu fjármálastofnun landsins, þ.e. lífeyrissjóðunum sem hafa fjármagnað húsnæðiskerfi landsmanna að mestu leiti í gegnum Íbúðalánasjóð. Ef fjármálastofnanir landsmanna sem bera sína ábyrgð á græðgisvæðingunni og verkalýðshreifingin sem lét sér það vel lynda ætlar að vera stikk frí í þessum ógnarvanda, þá verður hann óleystur og líklega tapast þá miljarðarnir sem hér þarf til hvort sem er þegar íbúðaverð hrynur vegna offramboðs og landflótta ungs fólks sem sjálfumhyggja fjármagnseigenda býður uppá. Þá verða fáir aðrir eftir í þessu volaða landi en öryrkjar og eftirlaunaþegar og hverjir munu þá borga í lífeyrissjóðinn? Það er unga fólkið sem á í mesta skuldabaslinu og oftast eru það venjulegt launafólk og er þá ekki einhver þversögn í þessari afstöðu SGS og verkalýðshreyfingarinnar? Það er ástæða fyrir því að fólk ræður ekki við skuldir sínar og ástæðan er sú að fjármálafyrirtæki og stofnanir fóru offari í gróðahyggju og braski og ekki eru undanskyldir lífeyrissjóðir landsmanna sem hafa tapað margir hverjir sömu upphæð í þeim leik og hér þarf til að leiðrétta húsnæðisskuldir landsmanna og ekki var í þá tíð talað um aðför að lífeyrissparnaði. Þið pattaralegu verkalýðsforingjar ættuð öllu heldur að byggja upp vonir og trú á þessu landi fremur en hitt. Það má vel líta á leiðréttingu húsnæðisskulda sem góða fjárfestingu í framtíð þjóðarinnar, sem mun því fyrr ná efnahagslegri heilsu.
(þegar ég gagnrýni í þessari grein afstöðu verkalýðsfélaga innan SGS vil ég sérstaklega undanskilja Verkalýðsfélag Akranes sem er að mörgu leiti samdóma þessari grein í sínum skrifum.)