19.09.2010 01:46
Einn liður í Concorde ævintýrinu gerðist á Eyrarbakka.
Í júní árið 1967 var hafist handa við að reisa Dectravita á Eyrarbakka með mestu leynd og um tveggja ára skeið var þetta eitt best varðveitta leyndarmál Póst og fjarskiptastofnunar. Í þá tíð þótti ekki æskilegt að veita of miklar upplýsingar vegna þeirra tækni nýjunga sem í þessu kerfi fólust. Dectravitinn á Eyrarbakka var annað tveggja staðarákvörðunarkerfa sem Decca Navigator Company LW í Bretlandi kom upp, en það fyrirtæki rak fjölda Decca staðsetningarkerfa víðsvegar um heiminn, en þau voru þó ekki nærri eins fullkomin og Dectrakerfið sem sérstaklega var hannað fyrir breska flugherinn en einnig fyrir Concorde þoturnar sem gátu flogið í 40-80 þúsund fetum, en fram að því gátu þotur aðeins flogið upp í 35 þúsund fet. Dectravitinn saman stóð af tveim möstrum ca 80 metra háum og einu stöðvarhúsi sem stóðu á flötunum fyrir austan Borg. Höfðu tveir menn á Eyrarbakka eftirlit með þessu merkilega hernaðarleyndarmáli. Einhverju sinni þurfti að mála möstrin og voru þá fengnir til þess Indíánar, en þeir þóttu alveg lausir við lofthræðslu. Möstrin voru síðan felld einhverntíman á 7.áratugnum þegar betri staðsetningatækni (GPS) var komin til sögunar. Verst er þó að eiga ekki mynd af þessu fyrirbæri en hér til hliðar er mynd af litlu (18m) Dectramastri í Bretlandi.