15.09.2010 23:52
Horft til himinns
Á stjörnubjörtum himni eins og nú þarf maður ekki lengi að góna upp í himininn til þess að verða var við gervihnetti sem þeysa um himinhvolfið eins og fljúgandi furðuhlutir eða geimskip frá öðrum hnöttum. Gervihnettir á braut um jörðina skipta hundruðum og hafa mismunandi hlutverki að gegna. Sum fylgja jarðarhraða og eru því ávalt á sama stað, en önnur þeysast eftir sporbaug sínum rangsælis eða réttsælis í hring um jörðina. Sum eru hönnuð til veðurathuguna og eru þá kölluð veðurtungl. Eitt slíkt er t.d. veðurtunglið EUMETSAT.
Fyrsta gervitunglið sem komst á sporbaug var hinn Sovéski "Spúttnik" sem Rússar skutu á loft 4.oktober 1957. Fyrir tíma veðurtunglanna var notast við veðurskip til að vara við vondu veðri. Á norður Atlantshafi voru starfrækt þrjú veðurskip og eitt þekktast þeirra var norska veðurskipið Mike (Metró í íslenskum veðurfregnum) sem gert var út milli Íslands og Noregs frá árinu 1948 og allt til dagsins í dag. Veðurskipin voru ekki síður mikilvæg til leitar og björgunarstarfa á hafi úti en til veðurathuguna og flugleiðsagnar auk ýmissa rannsóknarstarfa á hafinu. Gervitunglin hafa nú tekið við þessu hlutverki að stæstum hluta og veita jafnvel mikilvæga aðstoð við björgunarstörf á hafinu.
Stjörnuhröp er ekki óalgengt að sjá á heiðskýrum næturhimni og falla margir loftsteinar í hafið eða í óbyggðum og valda því engum skaða, en flestir brenna þó upp til agna áður en þeir ná yfirborði jarðar. Loftsteinar voru þó mikil verðmæti fyrir eskimóa í upphafi landnáms þeirra á Grænlandi. Grænlandsjökull er stór og hefur tekið við mörgum slíkum steinum í gegnum árþúsundin og borið þá með skriðjöklum sínum til strandar, en eskimóarnir klufu þessa steina og notuðu þá í hnífsblöð allar götur þar til vestrænir menn hófu að versla við þá skinn og seldu þeim stálhnífa í staðinn.