29.08.2010 23:48
Uppskeran með besta móti
Kartöflu uppskeran er með besta móti í ár, enda hefur tíðarfarið verið með ágætum í sumar til hverskonar ræktunar og ekki er ósennilegt að aska frá Eyjafjallajökkli hafi auk þess bætt jarðveginn hér sunnanlands. Þó ekki sé lengur stunduð jafn stórtæk kartöflurækt og áður fyrr, þá eru enn ræktaðar kartöflur víða í görðum hér á Bakkanum og þykir mikil búbót af því. Saga kartöflunar á Eyrarbakka er líklega orðin 166 ára gömul, en það var Hafliði Guðmundsson, einn Kambránsmanna sem sat af sér dóm á Brimarhólmi og kom hann að utan með kartöflur í farteskinu árið 1844 og hóf að rækta þær í garði sínum á Eyrarbakka eftir heimkomuna. Nefdist sá garður "Hafliðagarður" Sagt er að refsifangar á Brimarhólmi hafi ekki fengið annað að éta en kartöflur, en þær þykja nú sjálfsagðar í hvert mál. Það var svo í kreppu millistríðsáranna sem stórtæk karöfluræktun hófst á Eyrarbakka og ekki síst fyrir tilstuðlan Bjarna Eggertssonar búfræðings.
Best er að geyma kartöflur á þurrum og dimmum stað, því þær þola illa dagsbirtu eða sterkt rafljós. Kartöflur þurfa góða öndun, þannig að forðast ætti að geima kartöflur í plasti eða lokuðum ílátum. kartöflur þola ekki að frjósa, en ekki er heldur gott að hafa þær í miklum hita, því þá er þeim hætt við að ofþorna. Hiti á bilinu 5-10° er ágætur geimsluhiti.