22.08.2010 16:10
Alda hafsins
Sjómenn og þeir sem búa við sjóinn þekkja vel ölduna. Vegalengd frá þeim stað sem alda verður til og þar til hún skellur á ströndinni, getur skipt þúsundum kílómetra þar sem strönd liggur að úthafi, eins og suðurströnd Íslands. Öldur sem verða til fyrir tilstyrk vindsins sem þrýstir á yfirborð sjávar, nefnast vindöldur. Flóðöldur eða "Tsunami" verða af völdum jarðskjálfta eða eldsumbrota neðansjávar. Slíkar öldur geta náð ótrúlegum hraða (700-800 km/klst) og ferðast þúsundir kílómetra. Hæð þeirra er aðeins nokkur fet, en þegar kemur að landi rísa þær allt upp í 9 metra hæð. Aðrar öldur verða til vegna skriðufalla eða jökulhlaupa í sjó fram sem mynda gríðar þrýsting á yfirborð vatns eða sjávar.
Vindaldan hækkar að vissu marki í samræmi við veðurhæðina sem myndaði hana, en hún brotnar og faldar hvítu þegar hún hefur náð 1/7 af lengd sinni. Þegar aldan kemst inn á grynningar, rís hún þar til að hún brotnar með brimi og brambolti eins og vel þekkt er t.d. á Eyrarbakka. Þegar veður lægir eftir storm, getur öldugangur vaxið og myndað undiröldu og eru sjómenn ævinlega í nöp við hana. Öldudufl eru viða með ströndum landsins og mæla tíðni milli öldufalda í sekúntum og hæð í metrum. Meðalhæð öldu í fárviðri er um 20-22 metrar. Það er stundum sagt að sjönda hver alda sé hærri en næstu sex á undan hvað svo sem til er í því, þá geta öldur verið misháar þó þær komi að landi hver á eftir annari. Hraði vindöldunnar getur verið mismunandi og ræður vindhraði þar mestu en undiraldan þokast áfram á um það bil15 mílna hraða. Sjaldgæft er að vindöldur nái 30 metra hæð úti á rúmsjó, en 6. febrúar árið 1933 var mæld 33 m há alda á bandaríska herskipinu "Ramapo" sem statt var á kyrrahafi í illviðri þar sem vindhraðinn mældist 68 hnútar.
Líklega er ekki auðhlaupið að þvi að mæla afl brimöldunnar í brimgarðinum á Eyrarbakka, en ekki er ólíklegt að aflið geti verið 6000 kg á fersentimetir eins og við svipaðar aðstæður erlendis. Tignarlegust er brimaldan þegar hún æðir hvítfext og rjúkandi á móti hvössum vindinum. Yfir vetrartíman getur brimið varað dögum saman í öllum sínum myndugleik, en á sumrin er brim fátíðara, enda veður stilltara á hafinu umhverfis landið.
Siglingastofnun sér um rekstur öldudufla við Íslandsstrendur og gerð ölduspáa sem hægt er að nálgast á vefnum http://vs.sigling.is/ . Hér má einnig nálgast ölduspá frá surf-forecast.com
Heimild m.a.:Bók Peters Freuchens of the seven seas.