06.08.2010 14:55
Við höfnina
Hafnargerð hófst á Eyrarbakka árið 1963 og stóð með hléum til 1977. Höfnin leysti af gömlu löndunarbryggjurnar sem kendar voru við Kaupfélagið Heklu og Vesturbúðina. Þegar brúin kom yfir ósinn 1988 færðist útgerðin til Þorlákshafnar og hafnirnar á Eyrarbakka og Stokkseyri lögðust af. Við höfnina er nú risið lítið "Take a way" kaffihús sem heitir því skemtilega nafni "Bakkabrim". Nú til dags gera Eyrbekkingar og Stokkseyringar út á ferðamenn sem fá jafnan góðar móttökur hjá vertunum við sjávarsíðuna.
Fiskveiðar hafa verið stundaðar frá þessum fornfrægu brimstöðum frá upphafi byggðar. Einhverju sinni voru tveir útvegsbændur á Eyrarbakka, annar á Skúmstöðum en hinn á Stóru-Háeyri. þeir áttu sinn áttæringinn hvor sem þeir létu ganga á Eyrarbakka. Stokkseyrar-dísa (Þórdís Magnúsdóttir d.1728 og þótti rammgöldrótt) lét um sama leyti teinæring ganga á Stokkseyri. þegar hún frétti að skipum þeirra gekk töluvert betur að fiska en hennar brá hún sér um miðja nótt út á Eyrarbakka, tók öll færin úr báðum skipum, bar þau austur að Stokkseyri og fleygði þeim upp á bæjardyraloft og lét þau liggja þar þangað til þau fúnuðu og urðu ónýt, en um morguninn kemur hún út og gengur fram á sjávarbakkann. Sér hún þá bæði skipin fara sundið og mælti hún þá: ,,hjálpað hefur fjandinn þeim til að komast út á sjóinn fyrir þessu."
Heimild Þjóðsögu: http://sagnagrunnur.raqoon.com/index.php?target=home