01.05.2010 13:10
Andrés stóð í eldhríðinni
Andrés Jónsson fæddist 1896 á Litlu Háeyri (eldri bær) Í uppvexti hans fór lítið fyrir sjálfseignarmönnum í þorpinu. Þorleifur ríki á Háeyri átti hálfann Bakkann sem svo erfði tengda sonur hans Guðmundur Ísleifsson. Íbúar þorpsins voru um 900 og mikil gróska í atvinnulífinu sem byggðist fyrst og fremst á sjónum en í annan stað á verslun. Róðrar voru stundaðir á allt að 30 opnum bátum og skapaðist mikið og fjörugt verbúðarlíf í kring um sjómennskuna. Margir höfðu einhverjar grasnytjar og áttu dálítið af skepnum og höfðu af því talsverðan styrk. Þegar vélbátar og vegir komu til sögunnar fór smám saman að halla undan fæti. Verslunin hvarf smám saman og aðstaða fyrir vélbátaútgerð var enginn. Á kreppuárunum var orðin mikil neyð í þorpinu sem varð til þess að menn hölluðu sér meira að búskap sem ugglaust forðaði mörgum frá beinum sulti. Búskapur fór svo að dragast saman upp úr 1950 þegar fiskvinnsla og frystihús komst á skrið samfara bættum hafnarskilyrðum, en erfiðleikarnir héldu áfram og Eyrbekkingar voru ekki komnir fyllilega upp úr öldudalnum þegar útgerð og fiskvinnsla hvarf á braut.
Andrés í Smiðshúsum eins og hann var kallaður, lifði og starfaði í þessu umhverfi, lengst af í sjómennsku en jafnframt með nokkurn búskap eins og tíðkaðist hjá mörgum á kreppuárunum og síðar. Hann gekk í Verkamannafélagið Báruna 14 ára og átti síðar eftir að vera oft í stjórnum og formennsku fyrir félagið. Verkalýðsbaráttan var erfið, oft hörð og óvægin á köflum. Þar var gjarnan tekist hart á, jafnt innan búðar sem utan þar sem pólitískar skoðanir léku stórt hlutverk. Á þeim tíma var verkalýðsfélagið ómissandi baráttuvettvangur og um leið mikill félagsmálaskóli. Þegar félagið var upp á sitt besta fór það í raun með völdin í þorpinu og átti sína menn í hreppsnefnd. Þegar gömlu mennirnir sem stóðu í eldhríðinni hurfu af vettvangi fór afl félagsins þverrandi.
-
Tímarnir höfðu breyst, næg vinna var fyrir alla og velmegun ríkti, líka hjá verkafólki því baráttan hafði skilað árangri til fólksins og áhugi á verkalýðsmálum hvarf um leið eins og dögg fyrir sólu. Andrés og aðrir gamlir leiðtogar verkalýðsins töluðu fyrir því að valdið yrði fært í ríkara mæli til fólksins, en sú draumsýn virðist seint ætla að rætast. Þegar ítökum verkalýðsfélaganna sleppti náðu bankarnir taki á almenningi og gerðu að skuldaþrælum og því meir sem kaupmáttur dalaði í verðbólgubáli liðinna áratuga var það bætt með lánum í alskyns myndum svo að jafnvel fyrsti peningur sem ungt fólk sá var lánspeningur frá bankanum. Fólk þorði ekki lengur að berjast til þrautar af ótta við að skuldir sínar hjá bankanum yrðu gjaldfelldar. Svo þegar bankarnir hrundu og bankamafían fór í felur með restina af góssinu situr verkafólk þrátt fyrir það enn fastar í hlekkjum sínum en áður og enginn virðist fær um eða hafa viljan til að losa það. Fyrir verkafólkið virðist bara eitt að gera, að grafa upp gömlu stríðsöxina.