07.04.2010 09:23

Morinsheiði eða Morrisheiði

FimmvörðuhálsMargir hafa velt því fyrir sér í tengslum við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi, hvernig sérkennilegt nafn á títtnefndri heiði "Morinsheiði" sé til komin.

Nafnið á heiðinni er búið til af Jóni Söðla Jónssyni * frá Hlíðarendakoti í Fljótshlíð sem var leiðsögumaður ensks Íslandsvinar, á þessum slóðum á seinni hluta 19. aldar. Sá hét William Morris (1834-1895) rithöfundur og skáld og kom hann tvívegis til Íslands. Heiðina nefndi Jón eftir honum og kallaði Morrisheiði. William Morris nam svo vel íslenska tungu, að hann þýddi á ensku íslendinga sögur, þar á meðal Völsungu og Eyrbyggju. Jón söðlasmiður, eða Jón söðli, eins og hann var almennt kallaður, átti heima í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð, þekktur fræðaþulur en þótti sérkennilegur. Hann var stundum fenginn til að fara í lestaferðir og sagnir gengu um það að honum hafi hætt við að vera nokkuð lengi í ferðalögum. Eitthvert haust var hann sendur suður í Reykjavík með tvo hesta í taumi. Segir fátt af ferðum hans, fyrr en hann kom að Sandhólaferju á austurleið. Þá hafði tognað ískyggilega úr reisunni hiá Jóni, enda veisla orðið einhvers staðar á vegi hans. Á Hlíðarenda bjó Gunnar Hámundarson, þar átti Bjarni skáld Thorarensen einnig heima um hríð, í Nikulásarhúsum, eyðibýli hið næsta, ólst Nína Sæmundsson, myndhöggvari upp, í Hlíðarendakoti voru æskuslóðir Þorsteins skálds Erlingssonar.
           Jón Söðli Jónsson            William Morris
                          Jón Söðli                               Morris
* Menn eru þó ekki á einu máli um hvort Jón Söðli hafi í raun búið þetta nafn til og verið getur að það sé seinni tíma tilgáta. Einnig þarf að hafa það í huga að áræðanlegar heimildir um nafngiftina hafa ekki fundist.

Við sjávarsíðuna var stundum talað hér áður fyrr um að  mor og mistur byrgði allt útsýni frá Austurfjöllum fram til Vestmannaeyja, og er svo tekið til orða í "Vöku 1.árg. 1927"

Flettingar í dag: 9
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 266943
Samtals gestir: 34349
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 00:50:57