07.12.2009 20:39

Barna-Arndís

Stjórnarráðið eða "Tugthúsið"Árið 1771, þegar tugthúsið við Arnarhól (Nú stjórnarráðið) átti að heita fullgert bættist þar nýr fangi í hópinn, það var kona um tvítugt. Hún hét Arndís Jónsdóttir og var dæmd í tugthúsið fyrir þrjár barneignir með giftum mönnum. Arndís var ættuð frá Eyrarbakka og höfðu mál hennar vakið allmikið dómastapp, fyrst rekinn í útlegð úr Skaftafellssýslu eftir tvær barneignir þar og síðan dauðadóm á Stokkseyrarþíngi að lokinni þriðju barneign.

 

 
En þeim héraðsdómi var af lögþíngisréttinum breytt í fjögurra ára tugthúsvist. Þann 17. desember 1772 ól Arndís Jónsdóttir barn í tugthúsinu og lýsti föður að því samfánga sinn, Flæking nokkurn Arnes Pálsson að nafni og gekkst hann fúslega við faðerninu.


Enn líður hátt á annað ár og 8. ágúst 1774 ól Arndís enn barn og lýsti Arnes föður að, en nú þrætti Arnes. Er þess ekki getið að rekist hafi verið í því frekar og svo undarlega var haldið á málum sem þessum í þá daga, miðað við aðra harðneskju í sakamálum, að slík brot innan veggja tugthússins breyttu eingu um hegningu fanganna.

 


Árið 1775 lauk vist Arndísar í fangelsinu. Það skipti líka eingum togum að er hún var komin þaðan og setst að hjá foreldrum sínum á Eyrarbakka, ól hún þá sitt sjötta barn er hún hafði aflað sér í tugthúsinu og í það skiptið með vermanni sem reri suður með sjó.

 

 
Hófust nú enn réttarsóknir og nýjar barneignir, tvær í viðbót og Arndís dæmd á spunahús í Kaupmannahöfn.Ekkjumaður einn drenglyndur kom í veg fyrir þau ósköp með því að óska þess að mega kvænast Arndísi og úrskurðaði konungur að hún skyldi þar fyrir leyst frá hegningu. Maður þessi dó reyndar áður en af giftingunni varð, en Arndís giftist samt innan skamms.

 

Var þá málaferlum öllum varðandi barneignir hennar loksins lokið. Sakamál Arndísar Jónsdóttur er einstakt dæmi úr réttarfari þessa tímabils. Um mál hennar var fjallað af þremur sýslumönnum, lögréttu með lögmann í broddi fylkingar, af landfógeta, stiftamtmanni og dómsmálastjórninni í Kaupmannahöfn og loks af konungi sjálfum.
 

 

Hvílík fylking virðulegra embættisherra á eftir einni konu! Og allt vegna þess, að

hún vildi ekki láta sér skiljast, hve syndsamlegt það var að dómi samtíðarinnar að hlýða kalli náttúrunnar og tók ein á sig sökina, skrifaði próf. Guðni Jónsson um þetta mál.

Heimild: Úr grein Þorsteins Jónssonar frá Hamri í Tímanum 37.tbl 1962

Flettingar í dag: 206
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 1863
Gestir í gær: 241
Samtals flettingar: 381150
Samtals gestir: 43190
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 00:07:28