23.11.2009 00:07
Öld frá opnun símstöðvar.
Þegar vorskipanna var von, þá var þegar farið að skyggnast eftir þeim, en það var undir byr komið hve lengi þurfti að stunda þá iðju. En það var nú til nokkurs að vinna því að sá sem fyrstur sá skipið fékk að launum brennivínsstaup í Vesturbúðinni. Með skipunum bárust Eyrbekkingum fyrstu fréttirnar utan úr heimi, en þetta átti eftir að breytast með tilkomu símans.
Símstöð var opnuð hér á Eyrarbakka 1. september 1909 og var þá í fyrsta sinn talað í síma milli Eyrarbakka og Reykjavíkur og þann 8. september var hún opnuð til almennra afnota. Fyrsti símstöðvastjórinn var Oddur Oddsson gullsmiður í Reginn og ritstjóri fréttablaðsins Suðurlands. Hann var maður óvenju vel gefinn, fjölfróður og hagur mjög til allra hluta. Kona hans var Helga Magnúsdóttir frá Vatnsdal í Fljótshlíð og féll það í hennar hendur að hafa daglega vörslu símans. Hún þótti lipur og greiðvikin og þjónustaði viðskiptavini jafnan meira en skyldan bauð. Þau þjónuðu hér í 39 ár, en þá tók við Magnús sonur þeirra og sá um hana til ársins 1947, er hann fluttist héðan. þá tók við stöðinni Jórunn dóttir þeirra hjóna og veitti hún stöðinni forstöðu í 20 ár. Þannig hafði sama fjölskyldan veitt símstöðinni forstöðu í hart nær 58 ár. Árið 1967 tók Sigurður Andersen við Símstöðinni og ári síðar tók sjálvirki síminn til starfa en eflaust muna margir eftir gráa Ericson símanum sem kom í stað sveifarsíma með rafhlöðum. Sigurður veitti símstöðinni forstöðu til ársins 1997 en nokkru síðar var afgreiðslan lögð niður, en sjálvirka stöðin er enn í notkun.
Heimild; Að hluta Pálína Pálsdóttir Mbl.1968
Símtal til Reykjavíkur ()
Sigurður Andersen