25.06.2009 22:02

Fólkið við ósinn- Óseyrarnes

Vestasta jörðin í Eyrarbakkahreppi heitir Óseyrarnes, en hefur áður heitið Nes og Ferjunes og sameinast gömlu landnámsjörðinni Drepstokki. Nesbærinn hafði verið fluttur fimm sinnum frá ánni, síðast 1728. Þar var ferjustaður og þjóðbraut allt frá miðöldum og oft tvíbýlt. Lögferjan gaf vel af sér í eina tíð en með tilkomu brúar yfir Ölfusá við Selfoss náði ferjubóndinn vart upp í kosnað við ferjuhaldið. Má enn sjá rústir þar sem bærinn stóð síðast nokkuð austan við ósinn. Sjávarflóð höfðu alloft valdið tjóni á slægjulöndum og kálgörðum Óseyrarness, eða allt þar til sjóvarnargarður var byggður laust eftir aldamótin 1900, en allt kom þó fyrir ekki því sjóvarnargarður þessi sópaðist burt að stórum hluta árið 1916 og tók þá út annann ferjubát staðarins og tíndist hann.(Ferjubátar í Óseyrarnesi voru jafnan 17 manna far, róinn 4 árum.) Í kjölfarið átti landið undir högg að sækja sökum sandblásturs. Garðurinn var endurbyggður og uppgræðsla hófst, en í stóraflóðinu 21.janúar 1925 hrundi garðurinn í annað sinn og sagan endurtók sig. Óseyrarnesi fylgdi góð laxveiði og fengust jafnan 200 til 500 laxar á sumri þegar best lét, en einnig var stunduð þar selveiði í stórum stíl og var selnum smalað niður ánna með bátum og mannsöfnuði.

 

Jón hét maður og var Ketilsson (1710-1780) hreppstjóri, formaður í Þorlákshöfn og ferjubóndi í Ferjunesi eins og bærinn hét í þá daga, faðir Hannesar lögréttumanns í Kaldaðarnesi, er bjó í Ferjunesi 1778-1782. Þess skal getið hér til gamans, að árið 1789 skipaði Steindór sýslumaður Finnsson þá Hannes lögréttumann og Þórð bónda Gunnarsson í Þorlákshöfn til þess að vera "forstjórnar og forgangsmenn" til undirbúnings og varnar gegn erlendum sjóræningjum, ef þeir legðu að landi í Þorlákshöfn á vertíðinni.

 

Jón Jónsson hét einn afkomandi Jóns Ketilssonar og var hann óðalsbóndi á Óseyrarnesi á fyrri hluta 19.aldar, ekkjumaður með 5 fyrrikonubörn öll ung að árum, en kona hans var Ólöf Þorkellsdóttir frá Simbakoti. Eitt þeirra barna var Þorkell (d.1897) sem síðar var hreppstjóri og bjó hann alla tíð á Óseyrarnesi. Annar sonur Jóns hét einnig Jón og var hann formaður á Farsæl í Þorlákshöfn og fræðimaður í Simbakoti á Eyrarbakka. (Jón í Simbakoti var af ríku fólki kominn, en dó sjálfur í fátækt. Bækur hans og rit voru boðin upp ásamt kistunni sem þær voru geymdar í, en hana keypti Gísli Eiríksson í Bitru). Jón eldri giftist aftur 1836 Guðrúnu Guðmundsdóttur f.1801 frá Arnarholti í Biskupstungum og áttu þau saman 4 börn, en eitt dó í æsku. Jón dó 1858 en Guðrún hóf þá búskap með Sigurði syni sínum (1843-1876) og konu hans  Ragnheiði Hannesdóttur frá Kaldaðarnesi að Björk í Grímsnesi. Guðrún dó 1871.
 

Eitt barna Þorkells Jónssonar hreppstjóra í Óseyrarnesi hét Þorkell og var hann m.a. formaður í Þorlákshöfn. Á vertíðinni 1883 hvarf skip Þorkels í  vonsku veðri og var talið af, en skipshöfnin bjargaðist í erlent skip og kom fram að mörgum dögum liðnum.

 

Bjarni Hannesson hét maður fæddur á Baugstöðum í Stokkseyrarhreppi (1816-1878). Um vorið 1839 flutti hann til vinnumensku að Óseyrarnesi, en árið eftir giftist hann heimasætunni á bænum Sigríði Guðmundsdóttur (1817-1901). Sigríður fæddist á Sléttum í Hraunshverfi, en flutti með foreldrum sínum að Óseyrarnesi 1823. Bjarni tók síðan við búi af tengdaföður sínum árið 1842 og bjó á Óseyrarnesi í 33 ár. Bjarni og Sigríður eignuðust eina dóttur, Elínu f.1842. Hún giftist Grími ríka Gíslasyni (1840-1898) frá Syðra-Seli á Stokkseyri sem þá var vinnumaður á Óseyrarnesi, en hann tók við búinu af tengdaföður sínum 1875. Bjarni Hannesson var hreppstjóri Stokkseyrarhrepps um nokkur ár.

Grímur Gíslason ÓseyrarnesiGrímur óðalsbóndi í Óseyrarnesi var atorkusamur bóndi og aflasæll formaður. Hann átti m.a. aðkomu að Stokkseyrarfélaginu, (1889-1895) sem var nokkurskonar undanfari Kaupfélags Árnesinga ásamt hafnarbótum, vöruhúsbyggingum (Ingólfshúsið og Zöllnershúsið sem brunnu 1926) og sjóvörnum þar á Stokkseyri. Börn Gríms og Elínar urðu 8. Meðal þeirra voru Páll hreppstjóri í Nesi í Selvogi en síðar að Flóagafli. Bjarni yngri f.1870 ferjumaður, formaður í Þorlákshöfn, verslunarmaður á Stokkseyri og stjórnarmaður Flóaáveitufélagsins en síðar fiskmatsmaður í Reykjavík. Guðmundur en hann gekk í lærða skólann í Reykjavík, Sigríður kona Þorkells Þorkellssonar frá Óseyrarnesi og Valgerður kona Gísla skósmiðs í Íragerði.

 

 

 

Aðfararnótt 8. nóvember árið 1900 brann íbúðarhúsnæðið að Óseyrarnesi til kaldra kola ásamt öllum innanstokksmunum og vetrarforða, en mannbjörg varð. Þá bjuggu þar bændunir Gísli Gíslason formaður í Þorlákshöfn og Eiríkur Jónsson. Eftir brunann var bærinn endurbyggður og árin 1912- 1915 bjuggu á öðru býlinu Vilhjálmur ferjumaður Gíslason Felixsonar frá Mel i Ásahreppi og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. Móðir Vilhjálms var Styrgerður Filippusdóttir frá Bjólu í Rángárvallasýslu, en hún bjó í Einarshöfn hin síðari ár. Vilhjálmur tók jafnan skrýngilega til orða. Bjarni Eggertsson á Eyrarbakka sauð saman þessa vísu upp úr sumum skringilyrðum hans:

 

Skjóðuglámur skjótráður

skýzt yfir ána í kasti

glyrnupínu grjótharður

gefur í rótarhasti.

 

Einhvern tímann um svipað leiti átti heima á Óseyrarnesi Magnús mormóni Kristjánsson, en hann hafði áður búið í Stokkseyrarhverfi og í Vestmannaeyjum. Hann var hér orðinn gamall og þrotinn heilsu og kominn á sveitina. Hann þótti einkennilegur maður en var gáfaður að upplagi þó ekki hefði gengið menntaveginn. Til var handrit af söguþætti um Magnús mormóna, (Íslenskir sagnaþættir II eftir Brynjúlf Jónsson). Eiríkur Jónsson frá Hlíð í Skaftártungu bjó um hríð i Óseyrarnesi en hann druknaði á Ísafirði.

 

Kona ein Margret að nafni sem átti heima á Óseyrarnesi 1931 náði eitt sinn í landselskóp og tamdi hann sem gæludýr. Fór kópurinn aldrei í sjó né vatn en fékk þó bað á hverjum degi. Lifði kópurinn þar góðu lífi eins og einn af hundunum á bænum. Ekki er vitað um hvort selur þessi hafi orðið gamall.

 

 

Páll Grímsson í Flóagafli var eigandi Óseyrarnes þegar það var selt EyrarbakkahreppiÁrið 1898 var Eyrarbakkahreppi veitt heimild til að kaupa Óseyrarnes og gekk það eftir árið 1906.

Margt fleira fólk en hér er greint frá átti heimili á Óseyrarnesi í lengri eða skemmri tíma, svo sem vinnuhjú og afkomendur ferjubændanna. Óseyrarnes mun hafa farið í eyði um seinna stríð.

 

Eyrarbakki.is. Þjóðólfur , 5. tölublað 1864 Þjóðólfur , 12.-13. tölublað 1873 Þjóðólfur , 15. tölublað 1880 Þjóðólfur , 11. tölublað 1898 Fjallkonan , 19. tölublað 1901 Suðurland , 11. tölublað 1910 Suðurland , 32. tölublað 1912 Lögrétta , 30. tölublað 1919 Morgunblaðið , 286. tölublað 1926 Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1927 Alþýðublaðið , 196. Tölublað 1931 Sjómannablaðið Víkingur , 21.-24. Tölublað 1940 Lögberg , 27. tölublað 1952 Sjómannablaðið Víkingur , 11.-12. Tölublað 1944.

Flettingar í dag: 2069
Gestir í dag: 258
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 262359
Samtals gestir: 33885
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 22:03:21