12.06.2009 22:52
Fólkið frá Flóagaflshverfi -Gerðiskot
Áður fyrr var þéttbýlt í Flóanum og mannmargt á hverjum bæ sem mörg hver eru aðeins tóftarbrot, en um marga aðra sér þess ekki merki að bær hafi staðið. Gerðiskot í Flóagaflshverfi eru tóftir einar norðaustan Hallskots. Jörðin þótti góð til ábúðar, tún og engjar voru talin ágætt, eggslétt flæðiengi; af þeim féll kringum 1500 hestar, töðugæft kúgresi. Sömuleiðis fylgdi selveiði og fjörubeit jörðinni.
þar var um árabil aðsetur sýslumannsins í Árnessýslu. Þar sat Þórður Guðmundsson sýslumaður 1857 er hann dæmdi sauðaþjófinn Ólaf frá Breiðumýrarholti og annað heimilisfólk fyrir ýmsar sakir. Þá bjó þar Stefán Bjarnarson sýslumaður en honum var veitt Árnessýsla 6. nóvember 1878, en hann tók ekki við henni fyr en 24. júní 1879 og sat til 1890. Árið 1883 mátti hann eiga við ræningjaflokk á ferð um Súluholtsmúla sem verður gerð nánari skil hér síðar. Stefán Bjarnarson var fæddur á Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð 29. júli 1826, sonur Björns Sigurðssonar, bónda þar, og konu hans þorbjargar Stefánsdóttur prests á Presthólum Lárussonar Schevings. Stefán var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu 1859-1878. Kona hans var dönsk, Karen Emelie f. Jörgensen. Stefán andaðist úr lungnabólgu í Gerðiskoti 3.júlí 1891. Sama ár hafði Stefán selt kaupmanninum á Eyrarbakka um 22 hektara af mýri sinni sem síðar rann til Kaupfélagsins Heklu og heitir nú Heklumýri.
(Hjá honum var um hríð (1884-1887 ) skrifari Ívar Sigurðsson. Fæddur á Gegnishólaparti í Árnessýslu 31. júlí 1858. Ólst þar upp hjá foreldrum sínum, Sigurði Ívarssyni og Guðrúnu Halldórsdóttur, og dvaldi þar hjá þeim fram yfir tvítugsaldur. Eftir veruna hjá sýslumanninum var hann 3 sumur verslunarmaður við Lefolis-verslun á Eyrarbakka en umgangskennari að vetrinum til. Byrjaði hann svo fyrstur allra smáverslun á Stokkseyri.) Eftir Stefán bjó þar um hríð (til 1902) Þorkell bóndi þorkellsson og hans frú Sígríður Grímsdóttir frá Óseyrarnesi. Þá bjuggu þar fram til 1906 eða 1907 Þórarinn Snorrason frá Læk í Flóa og kona hans Gíslína Ingibjörg Helgadóttir frá Eyrarbakka.
Ásgeir Sigurðsson skipstjóri fæddist 28. nóvember árið 1894 í Gerðiskoti í Flóagaflshverfi og af merkum bændaættum kominn. Faðir hans var Sigurður Þorsteinsson (1867-1950) frá Flóagafli, bóndi í Gerðiskoti , fræðimaður og rithöfundur. Móðir Ásgeirs, Ingibjörg Þorkelsdóttir (d.1950) var frá Óseyrarnesi, en þeir Þorkell hreppstjóri og Grímur í Óseyrarnesi voru í þann tíð taldir meðal dugmestu og bestu manna og var mikill kunningsskapur milli Gerðiskotshjóna og Óseyrarnessheimilisins. Þau hjónin Ingibjörg og Sigurður eignuðust átta börn, en tvö dóu á tólfta ári og sex komust upp, þau Árni (d.1949) fríkirkjuprestur, Ásgeir skipstjóri, Þorkell skipstjóri, Sigrún á Rauðará, Þóra Steinunn húsfrú og Sigurður Ingi, síðar sveitarstjóri á Selfossi. Sigurður gerðist fljótt virkur félagi í verkamannafélaginu "Bárunni" og formaður félagsins var hann um nokkurt skeið. Lenti félagið þá í fyrsta verkfalli sínu meðan hann var formaður, en þá deilu leysti hann vel.
Ásgeir gerðist beitustrákur á Eyrarbakka og í Þorlákshöfn fyrir fermingu en þeir sem þann starfa fengu, máttu þola kuldann í beitu körunum og uppistöður, því að þegar mikill fiskur var, voru drengirnir .rifnir upp um miðjar nætur um leið og róið var og síðan urðu þeir að standa við beitinguna til kvölds, enda oft margróið. Ásgeir fór í sveit á hverju sumri fyrst framan af, en síðan eftir fermingu fór hann að róa á opnum áraskipum af Bakkanum og úr Höfninni, en fór í vegavinnu með föður sínum á sumrin. Árið 1910 fluttust Sigurður og Ingibjörg með börnin til Reykjavíkur. Þá réðist Ásgeir á skútur og á togara, var um skeið á brezkum togurum. Ásgeir fór í sjómannaskólann og útskrifaðist úr honum árið 1914. Eftir prófið fór hann aftur á togara, en í júlí 1917 varð hann 2. stýrimaður á gamla Lagarfossi og var hann á Eimskipafélagsskipum þar til Skipaútgerð ríkisins var stofnuð um áramótin 1929 og 1930. Var hann síðan skipstjóri á tveimur Esjum og síðan á Heklu.
Ásgeir Sigurðsson lét sig félagsmál sjómanna miklu skipta. Hann stofnaði Skipstjórafélag íslands og var for maður þess um sinn. Hann var einn af helstu hvatamönnum að stofnun Farmanna og fiskimannasambands íslands og forseti þess frá upphafi til dauðadags. Ásgeir varð bráðkvaddur 1961 úti í Noregi, þar sem hann var í ferð á skipi sínu MS Heklu.
Þá bjó í Gerðiskoti frá 1911 Brynjúlfur Jónsson skáld og fræðimaður frá Minnanúpi með syni sínum Degi Bryjúlfssyni búfræðingi (Síðar oddvita í Gaulverjabæ) er hóf búskap á jörðinni 1907. Kona Dags var Þórlaug Bjarnadóttir (1880-1966) frá Sviðugörðum í Gaulverjabæjarhreppi. Brynjúlfur kvæntist aldrei, en hann átti Dag með stúlku Guðrúnu að nafni Gísladóttir, frá Káragerði í V-landeyjum.
Brynjúlfur er fæddur að Minnanúpi í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu 26. sept. 1838. Foreldrar hans voru Jón Brynjúlfsson og Margrét Jónsdóttir, er lengi bjuggu að Minnanúpi. Brynjúlfur er kominn í beinan karllegg frá Þorláki biskupi Skúlasyni, en móðir afa hans var dóttir Halldórs biskups Brynjúlfssonar. 17 ára fór hann fyrst til sjóróðra, og reri upp frá því 13 vetrarvertíðir, flestar í Grindavík og nokkrar vorvertíðir í Reykjavík. Þar komst hann í kynni við ýmsa mentamenn, og má helst lil þess nefna dr. Jón Hjaltalín landlækni Árna Thorsteinsson landfógeta, Jón Pjetursson yfirdómara, Jón Árnason bókavörð og Sigurð Guðmundsson málara. Þeir tveir er fyrst voru nefndir vöktu áhuga hans á ýmsum greinum náttúrufræðinnar, en hinir þrír á fornum fræðum íslenskum: ættvísi, þjóðsögum og fornmenjarannsóknum. Þá kom það fyrir vorið 1866, að hann misti snögglega heilsuna. Var það helst kent bilun við byltu af hestsbaki. Heilsubilun þessi lýsti sér einkum í magnleysi, er kvað svo ramt að, að hann mátti ekkert á sig reyna. Þótt hann að nafninu til væri oftast á ferli, átti hann erfitt með allan gang og riðaði sem dauðadrukkinn maður; gat hann og hvorki klætt sig né afklætt sjálfur, né heldur lesið eða skrifað og þegar hann aftur styrktist svo mikið að hann fór að geta lesið og skrifað þá gat hann það þó því að eins að hann héldi bókinni eða blaðinu og skiffærunum beint fram undan augunum. Smám saman komst hann aftur til nokkurnveginn heilsu, en um venjulega líkamsáreynslu var ekki framar að tala. En þá kom fróðleikur sá er hann hafði aflað sér honum að notum. Stundaði hann þá barnakenslu nokkra vetur á Eyrarbakka og las og samdi ýmislegt í hjáverkum. En á sumrin ferðaðist hann á milli kunningjanna. Árið 1892 komst hann svo í þjónustu Fornleifafélagsins. Síðar fékk hann titilinn "dannebrogsmaður". Brynjúlfur lést úr lungnabólgu 1914. En það ár flytja Dagur og Þórlaug frá Gerðiskoti.
Upp frá því lagðist Gerðiskot í eiði en nokkrar deilur hafa spunnist um landamerki á þessum slóðum, en Eyrarbakkahreppur keypti jörðina þegar hún féll úr ábúð.
Heimild: m.a. Tímaritið Óðinn 01.10.1908 og 01.11.1916. Alþýðublaðið , 223. Tölublað.1961 Konur fyrir rétti eftir Jón Óskar. Frjáls Þjóð 1959 Alþýðubl. 10.9.1947 & 5.10.1961 Morgunbl. 297 tbl.1983