10.05.2009 21:15
Fiskhaldari biskups
Klemens Jónsson hét bóndi er bjó í Einarshöfn á Eyrarbakka. Hann var bæði skipasmiður og formaður á egin skipi, en auk þess hafði hann umsjón með fiski Skálholtsbiskups á Eyrarbakka. Þann 7.júli 1728 lagði Jón Árnason biskup (1722-1743) fyrir Klemens að hann sýni kaupmanninum á Eyrarbakka gamlann fisk sem biskup átti og velja eitthvað úr honum ef hann vilji. Þar næst skuli hann láta Norðlendinga þá er beðið höfðu um fisk, hvern um sig hafa það er hann hafi þeim ávísað og það af þeim fiski sem kaupmaður vildi ekki, en væri þó sæmilegur fyrir íslenska. Þar á eftir mátti Klemens að selja öðrum á 5 hesta fyrir 20 álnir hvert hundrað fiska. En það af fiskinum sem maltur væri orðinn eða það lélegur að ekki gengi út á þessu verði, vildi biskup eiga sjálfur til heimabrúks og handa flökkulýðnum er gerði sig heimankomna að Skálholti dag hvern. Jón var með stjórnsamari biskupum landsins en gerði ekki betur en að halda í horfinu um fjárhag stólsins og var hann þó fjárgæslu- og reglumaður. Það kann að vera skýringin á því að hann valdi sér lélegasta fiskinn. Áður hafði Jón verið skólameistari á Hólum og er það líklega ástæðan fyrir því að honum þótti vænna um norðanmenn en aðra.
Heimild: m.a.(Saga Eyrarbakka) Lesb.Morgunbl.22.tbl.1959