18.03.2009 21:22
Tóta gamla Gests í Garðbæ
Þórunn Gestsdóttir var fædd 17.mars 1872 að Króki í Meðallandi. Foreldrar hennar voru Gestur Þorsteinsson (Sverrissonar) og Guðrún Pétursdóttir frá Hrútafelli undir Austur Eyjafjöllum. Þórunn ólst upp hjá ömmu sinni og nöfnu Þórunni Jónsdóttur á Kirkjubæjarklaustri. Árið 1883 á 11. ári Þórunnar flutti hún búferlum með ömmu sinni úr V-Skaftafellssýslu og að Valdastöðum í Kaldaðarneshverfi til Olgeirs sonar síns, en Olgeir flutti ári síðar út í Selvog og fór þá gamla konan aftur að basla við búskap.
Þarna var Þórunn hjá ömmu sinni ásamt mállausum föðurbróðir sínum þangað til kaldaðarneskotin (Valdastaðir, Lambastaðir og Móakot) voru sameinuð í eina jörð og Kaldaðarnes (Kallaðarnes) gert að stórbýli af Sigurði sýslumanni Ólafssyni.
Á vetrum fór föðurbróðir Þórunnar til sjáróðra á Eyrarbakka en nöfnunar tvær gengdu húsverkunum á Valdastöðum. Bústofninn var 30 kindur, 3 kýr og 6 hross. Það gat komið fyrir á vetrum að Ölfusá gerði óskunda þegar hún flæddi yfir bakka sína með jakaburði og skildi tún eftir í sárum full af sandi og grjóti. Ölfusá átti það líka til að flæða inn í fjárhúsin án þess að nokkrum vörnum yrði við komið og verða skepnum þar að fjörtjóni.
Þegar amma Þórunnar hætti búskap fóru þau öll til vinnu hjá sýslumanninum og voru þar til gamla konan dó. Næstu fimm árin eftir lát ömmu sinnar var Þórunn vinnukona á Valdastöðum, en þaðan fór hún svo til Eyrarbakka og gerðist lausakona. Þá fór hún í kaupavinnu á sumrin og var lengst af á Bjóluhjáleigu. Á vetrum var hún oftast hjá Jóni Árnasyni kaupmanni í Þorlákshöfn og kyntist hún þar tilvonandi manni sínum, Ólafi í Garðbæ á Eyrarbakka, en hann var þá sendisveinn Guðlaugs Pálssonar kaupmanns á Eyrarbakka. Ólafur var maður stór, þrekinn, prúðmenni, hæglátur og góðgjarn í tali, en Þórunn aftur fjörug og hláturmild. Árin 1902 til 1903 vann Þórunn í eldhúsinu hjá frú Guðmundu Nilsen í Húsinu og lærði þar matreiðslu. Þórunn og Ólafur eignuðust tvær dætur, Ragnheiði og Karen en hún dó um tvítugt.
Þórunn fékk vinnu við verslunina á Eyrarbakka en féll ekki við að troða ull í poka allt sumarið. Hún var vön á sumrin við að vinna úti í hinni lifandi náttúru við grös og skepnur. Hún braut heilan um það hvernig hún gæti eignast kind, bara eitt lítið lamb. Og svo kom að því að hún keypti lamb. En Ólafi leist ekki á þetta framtak og sagði: "Tja, hvað ætlar þú nú að gera við þetta?
Þórunn dró af kaupinu sínu 4 krónur og fyrir það fékk hún fallega svarta gimbur. Þetta gerði hún á hverju ári þar til hún hafði eignast 7 kindur. Kindunum fjölgaði og hún hætti að troða ull í poka og fór að heyja á engjunum handa kindunum sínum. Þegar fyrra stríðið skall á þá sagði Ólafur" Tja, nú er gott að þurfa ekki að kaupa kjöt"
Þórunn hafði rétt á engjastykki í Straumnesi, en tjald sitt hafði hún á Stakkhól og dvaldi þar 6 vikur á sumri og heyjaði 100 til 114 hesta af stör. Á engjunum heyjuðu flestir Eyrbekkingar og lágu þar við yfir sláttin en komu aðeins heim um helgar. Allir hjálpuðust að við heybindingar og flutning niður á Bakka.
Þórunn ann kindunum sínum af lífi og sál. Á vorin vaknaði hún snemma morguns til að fara út á mýri, til þess að líta eftir blessuðum kindunum,og lét ekki aftra sér þó oft væri þar kalsamt og blautt. Engu skipti hvort var dagur eða nótt þegar kindurnar voru annars vegar. Stundum var henni ekki svefnsamt fyrir áhyggjum af litlu lömbunum og dreif hún sig þá út á mýri um miðjar nætur. En svo kom mæðuveikin og varð Þórunn að fella sínar 30 kindur vegna þess. En Tóta ætlar ekki að troða ull, og því tók hún það til bragðs að kaupa kú sem *Búkolla hét og eina kvígu og nokkrar hænur, auk þess sem hún ræktaði kartöflur og gulrætur. Lifði hún á þessu eftir að Ólafur hennar féll frá og var hún enn að þó kominn væri á tíræðis aldur. Eflaust muna margir Eyrbekkingar enn þann dag í dag eftir henni Tótu Gests. Þórunn dó 19. júní 1967 þá 95 ára gömul.
Heimild: Morgunblaðið 63.tbl.1952
*Kýrin hét "Gulrót" og hana keypti Þórunn af Lýð Pálssyni í Litlu Sandvík fyrir gulrætur sbr. blogg Lýðs yngri.