14.03.2009 16:01
Aftur til fortíðar
Það eru nú all mörg ár síðan útgerð var og hét á Bakkanum og enn lengra síðan bændur á Suðurlandi hættu að sækja verslun sína á Eyrarbakka. Uppvaxandi kynslóð þekkir því aðeins þetta gamla verslunar og fiskveiðiþorp af frásögn. En það er einmitt sú mikla saga sem er verðmætur menningararfur til næstu kynslóða. Þessa sögu er hvergi hægt að endurskapa nema hér á Eyrarbakka og gera hana þannig enn verðmætari.
Það yrði örugglega stórkostleg upplifun fyrir bæði innlenda sem erlenda ferðamenn, er þeir gengu um götur þorpsinns og findu angan af ilmandi engjaheyi þar sem sett yrði upp eftirliking engjaheyskapar með heysátum og lítilli tjaldborg, hrífum og ljáum og heyvögnum. Þá gætu kindur og kýr verið á beit og sett svip sinn á þorpið eins og forðum daga.
Fiskihjallar og árabátar myndu bera fyrir augu ferðamannsins og minnir hann á langa sögu fiskveiða frá Eyrarbakka. Þá kæmi hann að iðandi markaðstorginu þar sem bændur og handverksmenn væru með vörur sínar á boðstólnum og þar með endulífga forna verslunarhætti þar sem menn gætu prangað dálítið um verðið.
Að endurskapa sögu þorpsins er stórt tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila og menntastofnanir til að gera íslenskri menningararfleið hærra undir höfði en áður hefur tíðkast.