18.01.2009 22:36
Hafnardeilan
Lefolii hafði verið einráð um verslun á Eyrarbakka allt þar til árið 1860 að framtaksamur bóndi nokkur Einar Jónsson að nafni fékk sér borgarabréf sem kallað var og byrjaði dálitla verslun í smáum stíl. Af þessu hlaut Einar viðurnefni sitt og var eftileiðis nefndur Einar borgari. Hann stundaði ekki innflutning eins og Lefolli verslun og aðrir kaupmenn heldur keypti hann vörur sínar í Reykjavík á næri sama búðarverði og þar og flutti þær austur yfir fjall á hestbökum og seldi svo með nokkurri álagningu.
Árið 1870 kom ungur Skaftfellingur til sjóróðra á Eyrarbakka, Guðmundur Ísleifsson að nafni og fjórum árum síðar var hann orðinn formaður á einu af þeim sex róðraskipum sem gengu þá á Eyrarbakka. Margir tóku Guðmund sér til eftirbreytni og jókst sjávarútvegur mjög á Bakkanum. (1891 gengu 30 teinæringar af Eyrarbakka og voru venjulega 13 menn á hverju skipi.) Fólki fjölgaði að sama skapi og þrefaldaðist íbúatalan á fáum árum.
Guðmundur fór um þessar mundir að huga að verslunarrekstri og árið 1886 hóf hann innflutning á vörum frá útlöndum ásamt Einari borgara. Það sem stóð þeim félögum fyrir þrifum í þessu efni var að Lefolii átti allar tiltækar akkerisfestar í Eyrarbakkahöfn og bannaði keppinautum sínum aðgang að þeim.
Þeir félagar Guðmundur og Einar sáu sig því tilneydda að leggja sínar egin festar í höfnina vestan við festar Lefolii verslunar eftir að beiðni þeirra um leigu á festum var hafnað af Lefolii. Þeir hófu þetta verk 31.janúar 1888 í trássi við bann Lefolii. En svo háttaði til að Lefolli verslun átti land það og skerin þar sem Guðmundi og Einari þótti hentugast að leggja festar sínar.
Þann 7. febrúar fékk Lefolii sýslumann Árnesinga til að lýsa banni réttarins á áframhaldandi framkvæmdir félaganna. Til að fá þetta bann staðfest þurfti Lefolii að höfða mál og var það dæmt í héraði 8.ágúst 1888. Féll héraðsdómur svo að bannið var fellt úr gildi. Þann 25. febrúar 1889 staðfesti yfirdómurinn í Reykjavík héraðsdóminn (Einn dómari var á móti L.E.Sveinbjörnsson)
Lefolii skaut máli sínu til hæstaréttar í Kaupmannahöfn og var dæmt í málinu veturinn 1890 og var þeim kaupmönnum Guðmundi og Einari bannað að halda áfram að leggja festar sínar.
Þetta mál fór brátt úr því að vera einkamál þeirra Lefoliis, Guðmundar og Einars í það að verða eitt brýnasta hagsmuna og velferðarmál Sunnlendinga og landsins alls í þeirri viðleitni að auka samkeppni og frelsi í viðskiptum.
Heimild: Lögberg (júli 1891)