25.10.2008 22:12

Fyrsti vetrardagur


Barnaskólinn á Eyrarbakka á afmæli í dag en hann var stofnaður 25 oktober 1852 og er því orðinn 156 ára. Skólahúsið var byggt fyrir samskotafé almennings í héraðinu. Forgöngu fyrir þessari skólastofnun höfðu þeir sr. Páll Ingimundarson í Gaulverjabæ, Guðmundur Thorgrímsson verslunarstjóri á Eyrarbakka og Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri sem þá var hreppstjóri Stokkseyrarhrepps. Fyrsta
skólahúsið var reist að Háeyri, timburhús sem rúmaði 30 nemendur auk kennarastofu. Síðar var skólinn í því húsi sem jafnan er kennt við Gistihúsið og því næst þar sem hann er nú.

 Árið 1866 gengu 12 börn í skóla en árið eftir urðu þau 16 (11 drengir og 5 stúlkur) Það sem var fremur til að efla áhuga stúlkna á skólagöngu var ókeypis tilsögn í hannyrðum og söng sem dætur Guðmundar Thorgrímsens verslunarstjóra veittu. Þá kendi P.Nielsen að auki piltum leikfimi. Þegar ný löggjöf um menntun unglinga leit dagsins ljós um 1880 þá fjölgaði nemendum barnaskólanna á Eyrarbakka og Stokkseyri umtalsvert. Þá var að auki haldinn  sunnudagaskóli fyrir fullorðna þar sem kend var danska, reikningur, íslensk réttritun og söngur. Árið 1881 stunduðu 60 fullorðnir nám í sunnudagaskólanum.

þetta var mikið framfaraskref fyrir Suðurland á þessum árum sem gerði ungri kynslóð betur í stakk búna að takast á við nýja tíma. Enn á ný stöndum við frammi fyrir nýjum og breyttum tímum og enn gildir að búa sér vel í stakk með góðri menntun. Vonandi munum við áfram hlúa vel að framtíð unga fólksins og halda áætlun um byggingu nýs skóla á Eyrarbakka.

 

Flettingar í dag: 1591
Gestir í dag: 254
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261881
Samtals gestir: 33881
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:21:11