24.08.2008 11:30

Jasmín sendir okkur súldina.

Það er löng hefð hjá þjóðverjum að gefa hæðum og lægðum nöfn. Síðan 1954 hefur veðurstofa Free University of Berlin gefið þessum veðurfyrirbærum viðeigandi heiti. Sérhver hæð og lægð í miðevrópu hefur þannig fengið ýmist kvenmanns eða karlmanns nafn sem sjá má í mörgum veðurspám sem birtast í blöðum eða útvarpi og sjónvarpsstöðvum og nú einnig á netinu.

Þetta er þó ekki gert til skemmtunnar heldur er um ákveðna ástæðu að ræða. Með því að gefa loftþrýstisvæðunum nöfn er betur unnt fyrir almenning t.d. sjófarendur og flugmenn að fylgjast með stöðu og breytingum á viðkomandi loftþrýstisvæði.

Annað hvert ár skipta nöfnin um kyn. Árið 2008 fá háþrýstisvæðin karlmannsnöfn og láþrýstisvæðin kvenmannsnöfn. Árið 2009 fá svo hæðirnar kvenmannsnöfn og lægðirnar karlmannsnöfn.

Ekki veit ég hvort Veðurstofa Íslands hafi hugleitt að taka upp þetta nafnakerfi en óneitanlega yrðu veðurfréttirnar mun skemmtilegri ef svo bæri við. Þetta árið gætum við til dæmis notað nöfn strákanna í íslenska handboltalandsliðinu og stúlknanna í fótboltanum.

Annars má til gamans geta þess að lægðin sem nú dormar suður af landinu og sendir til okkar súld og rigningu heitir upp á þýsku Jasmín.

Flettingar í dag: 206
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 1863
Gestir í gær: 241
Samtals flettingar: 381150
Samtals gestir: 43190
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 00:07:28