19.08.2008 21:47

Smátt þótti þeim tóbakið skorið

Árið 1804 gengu af Eyrarbakka ríflega þrjátíu skip og var ætíð margróið þrisvar til fjórum sinnum á dag ef gott var í sjóinn. Á útmánuðum þetta ár mátti oft sjá örlitinn hnokka á reiki um sandinn með einhverja skjóðu um öxl. Hann hljóp að hverju skipi sem kom að landi og sjómenn áttu jafnan við hann erindi. Í skiptum fyrir besta fiskinn í þeirra hlut bauð hann tóbaksklípu eða örlitla brennivínslús. Þessi litli stubbur varð síðar þekktur undir nafninu Þorleifur ríki.
Þannig var að árið eftir að Þorleifur fermdist kom húsbóndi hans honum fyrir hjá formanni einum á Eyrarbakka til þess að vera beitudrengur hjá honum. Þorleifur var ráðinn upp á hálfan hlut sem rann þó allur til húsbóndans. Þorleifur littli hafði mötu sína meðferðis sem í var smjör og kæfa. Það var þó til siðs í öllum veiðistöðvum að hásetar máttu borða blautfisk af veiðinni svo sem þá listi þó þeir ættu ekki hlutinn sjálfir. Þegar vertíðin hófst þá fiskaðist þegar vel og var vertíðin hin aflasælasta allt til loka. Þoleifur litli gerði sér blautfiskinn að góðu en opnaði aldrei mötu sína til þess að éta úr henni sjálfur. Aðrir vermenn í búðunum voru ekki eins sparir á mötur sínar sem Þorleifur litli og því komust þeir í þrot löngu fyrir vertíðarlok.

Vermenn leituðu nú til Þorleifs eftir góðgæti því er hann átti í mötuskrínu sinni og vékst þorleifur vel við en þó ekki ókeypis. Hagnaðinn varði svo Þorleifur til þess að kaupa tóbak og brennivín í Eyrarbakkaverslun vitandi að senn þrytu byrgðir af þessari eftirsóttu munaðarvöru í versluninni. Þegar sá tími rann upp leituðu sjómennirnir enn á ný til Þorleifs litla sem enn varð vel við en smátt þótti þeim Þorleifur skera tóbakið og naumt skamtað vínið en alltaf krafðist Þorleifur sama endurgjalds, þ.e. vænsta fisksins í hlutnum.

Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00