17.08.2008 00:21
Þar gekk margur á rekann.
Háeyrarjörðinni fylgdi nokkur reki, en þar var Þorleifur ríki Kolbeinson bæði landsdrottinn og heimabóndi og átti því allan reka, en hjáleigumenn og þurrabúðamenn höfðu engin afnot af rekanum en máttu þó hirða fiskritjur nokkurar svo sem karfa og keilur, en algengt var að menn gerðust full hirðusamir á rekanum og hirtu upp spítu og spítu sem að landi bar ef þeir sáu svo færi á. Einhverju sinni hafði Þorleifur orðið þess áskynja að horfið hafði góður staur af rekanum og hafði hann Mundakotsmenn grunaða um hvarfið og lét gera leit hjá þeim en án árangurs. Þegar leitarmenn voru að fara segir Mundakotsbóndinn hróðugur -En að þið skilduð nú ekki leita í fjóshaugnum? -Þá er að gera það segir Þorleifur og þar fannst staurinn.
Af því tilefni kvað Þorleifur þessa vísu.
Í Mundkoti mæna
menn á hafið græna
viðnum vilja ræna
vaskir nóg að stela
þraut er þyngri að fela
Mangi og Jón
eru mestu flón
og minnstu ekki á hann Kela.
Bakkamenn er nú löngu hættir að ganga rekann, enda orðið fátítt að nytsamlegir hlutir reki að landi. Fyrir einhverjum áratugum voru það einkum börn og ungmenni sem gengu á rekann til að næla sér í vasapeninga. Þá var leitað eftir netahringjum og netakúlum sem mátti selja útgerðarmönnum og ekki þótti ónýtt að finna belg eða bauju því fyrir það mátti fá góðan pening. Í þá tíð þegar rekinn var ekki lengur í einkaeign giltu aðrar reglur, en þær voru að ef hluturinn var rekin á land þá átti hann sem fyrstur sá, en ef hluturinn var enn á sjó þá átti hann sem fyrstur til náði.