07.08.2008 11:13
Mannlífið á Bakkanum
Það hefur verið margt um mannin á Bakkanum í sumar, ferðamenn fjölmargir og sumarbústaðafólkinu fjölgar með hverju árinu. Gömlu húsin eru flest orðin sumarhús og jafnvel þau sem stærri eru hafa einnig hlotnast það hlutverk að verða sumardvalarstaður höfuðborgarbúans. Gömlu húsin í sinni fjölbreyttu mynd skapa heillandi umgjörð sem dregur að ferðamenn og sumardvalargesti þannig að söguþorpið verður að líflegum bæ yfir sumartímann, svona rétt eins og á blómaskeiði kauptúnsins.
Fjaran fuglalífið og náttúran hafa einnig töfrandi aðdráttarafl og margir sækja heim gallirí Gónhól gallerí Regínu og Rauða húsið eða líta við í söfnunum til að anda að sér tíðaranda genginna kynslóða.
Sumarið hefur verið gott á Bakkanum og gróður dafnað vel. Tré blóm og runnar vaxa í hverjum garði, nokkuð sem þótti nær óhugsandi fyrir nokkrum áratugum síðan þegar hvönn og njóli virtist vera það eina sem gat blífað við sjóinn.