02.06.2008 23:58

Enn bifast jörð.

Skrifstofa
Eftirskjálftar eftir þann stóra á fimtudag eru nú að nálgast 1.300 á sólarhring en allflestir það smáir að þeir finnast ekki. Í kvöld kom þó snarpur kippur sem fannst vel hér á Bakkanum og finnst mörgum komið æði nóg af þessum hristingi. Íbúar Árborgar, Hveragerðis og Ölfus hafa upplifað gríðarlegar náttúruhamfarir en þó tekið öllu með stakri ró eins og Íslendingum er tamt í endalausri baráttu sinni við hina óblíðu náttúru og það má segja þessari þjóð til hróss að íslensk húsagerð hefur þolað þessa raun með stakri príði. Helst eru það holsteinshús sem byggð voru um og eftir miðja síðustu öld sem hafa farið á límingunum.

Á Bakkanum eru amk. tvö hús ónýt eftir hin tröllslegu átök náttúrunnar og annað nokkuð laskað. Jarðskjálftinn sem þessu olli átti uptök sín í sprungu sem liggur rétt austan Ölfusárósa og upp að Hveragerði. Það má sjá hér á myndinni fyrir ofan af Bragganum hversu gríðarleg átökin hafa orðið, en austurstafninn hefur hreinlega kubbast í sundur.

Vísindamenn telja skjáftann núna vera framhald Suðurlandsskjálftanna árið 2000. Einig hefur komið í ljós að gufuþrýstingur í borholum á Hellisheiði snar jókst skömmu fyrir stóra jarðskjálftann sem gæti bent til ákveðinna tengsla þar á milli.

Í Suðurlandsskjálftunum1784 féllu bæjarhúsin á Drepstokki við Óseyrarnes og því ekki ólíklegt að þessi Óseyrarsprunga hafi verið að verki þá. Í jarðskjálftunum 1889 og Suðurlandsskjálftum 1896 er ekki getið tjóns á Eyrarbakka. Í Suðurlandskjálftum.6- 10 maí 1912 kom hinsvegar sprunga í húsið Skjaldbreið sem þá var nýlega steypt og má sjá þá sprungu enn í dag. Í jarðskjálftunum árið 2000 varð hinsvegar ekkert tjón á þessu svæði enda voru upptökin þá austar í Flóanum

Myndir.

Flettingar í dag: 996
Gestir í dag: 221
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261286
Samtals gestir: 33848
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:39:06