02.02.2008 00:09

Á Kyndilmessu 2.febrúar

Um þennan dag er kveðið:

Ef í heiði sólin sést
á sjálfa kyndilmessu,
frosta og snjóa máttu mest
maður vænta úr þessu.

(Höf. ókunnur)

En það er einmitt spá dagsins, sól í heiði og 12 stiga frost. En einhvern veginn finnst manni nóg komið af snjó!

Í byrjun janúar var hægviðri á Bakkanum af norðaustri, en smám saman kólnaði í veðri og um miðjan mánuðin voru norðanáttir ríkjandi með vægu frosti og fyrstu snjókornin létu kræla á sér. Þriðjudaginn 15 janúar var kominn kafalds snjókoma og slæm færð á vegum enda var sjódýptin á Bakkanum komin í 20 cm undir kvöld. En þetta var bara byrjunin á öllum ósköpunum þennan janúarmánuð. það hélt áfram að snjóa og færðin var slæm hvern dag því illa gekk að sinna snjómokstri. Þann 19. gekk enn á með éljum og helkalt því frostið rauk upp í -19°C. Þann 22. gerði SA hvassviðri með asahláku og stórbrimi með miklu særoki. Síðan tók snjókoman aftur völdin og setti allt á kaf og þann 24 var 29cm snjódýpt á Bakkanum og svo fór að hvessa með skafrenningi á Bóndadag sem setti allt úr skorðum og þurfti að loka Þrengslunum um tíma en síðan Hellisheiði. Ef menn hafa dreymt um að nú væri nóg komið, þá var það bara byrjun á nýrri veðurfarslegri martröð því enn einn stormurinn gekk á land þann 27. og fóru vindhviður yfir 30m/s og lá veðrið yfir allann þann dag. Ekki var hér öllu lokið því vonskuveður af norðan gerði síðasta dag mánaðarins með miklum kulda.

Úrkoma mánaðarins var 163mm á Bakkanum sem gæti verið í meðallagi.
 

Flettingar í dag: 95
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 2159
Gestir í gær: 262
Samtals flettingar: 262544
Samtals gestir: 33907
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 01:51:47