31.01.2008 21:45
Vonskuveður
Það er vonskuveður sögðu fréttirnar í dag og er það að sönnu, því þetta veðurlag er hrein og bein vonska!
Það hefur verið hvöss norðanátt á Bakkanum í dag og talsverður skafrenningur ofan til á Breiðumýri og lá kófið yfir hina nýju Tjarnarbyggð en þar liggur oft hvass vindstrengur í norðan og sunnanáttum. Frostið er að harðna og á Hveravöllum var komið -15°C kl.20 í kvöld.
Lægðin sem stjórnar þessu er nú á Norðursjó og veldur snarvitlausu veðri í Færeyjum og Danmörku en þar er veðrið verst á Vesturjyllandi en vindhraði hefur náð 24 m/s þar í kring. En okkur þykir það varla mikið, er það?
Í svona veðri er mikil vindkæling og samkvæmt danskri reiknisformúlu mv. frost -10°C og vind 10m/s sem er nokkurnvegin veðrið núna þá mun vindkælingin samsvara -20°C
Nokkuð er mismunandi hvernig vindkælingartöflur segja til um vindkælingu og gætu mismunandi þættir legið þar til grundvallar, einnig getur rakastig loftsins skipt miklu máli. það má gúggla ýmsar vindkælingartöflur á netinu og ef miðað er við eina slíka töflu þá mundi vindkælingin vera m.v. ofangreindar forsendur -29°C
Dönsku vindkælingarformúluna hef ég sett upp hér.
Heimskautafararnir Paul Allen Siple og Charles Passel fundu út hina upprunalegu formúlu fyrir vindkælingu árið 1939 sú formúla er hér.
Á netinu má einnig finna reikningsstokk þar sem vind og hitatölum er slegið inn eins og t.d. hér. ath. að hér þarf að breyta m/s í km/klst en 10 m/s eru 36km/klst.