20.01.2008 09:24

Lognflóðið 1916

Gömul mynd frá Eyrarbakka
Aðfararnótt 21.janúar árið 1916 var stillilogn og blíðu veður á Bakkanum. Það kom því íbúum hér við ströndina á óvart þegar skyndilega gerði óvenjumikinn sjógang og brimöldur sem gengu upp á land og ollu töluverðu tjóni. Sjórinn braut sjóvarnargarðinn vestur af Bakkanum milli Einarshafnar og Óseyrarnes á pörtum til grunna og var talið að tjónið hafi numið á bilinu 1000 til 1500 kr. sem þá var töluverður peningur eða um tvö árslaun verkamanns.

Olíugeimsluskúr frá versluninni Einarshöfn brotnaði í spón og 30 til 40 olíuföt frá kaupfélaginu Heklu skoluðust út í sjó, en þau náðust þó aftur lítið skemd. Nokkrar skemdir urðu einnig á bryggjum og dráttarbrautum. Á Stokkseyri brotnuðu tvo skip í spón, en þau höfðu staðið fyrir neðan sjóvarnargarðinn. Í Þorlákshöfn gekk sjórinn inn í sjóbúðir og braut gafl í nýrri steinsteyptri sjóbúð sem stóð á hátt á sjávarkambinum framan við lendingarnar, auk þess sem mörg önnur mannvirki löskuðust.

Í framhaldi var það mikið rætt hvernig mætti styrkja sjóvarnargarðana betur og var einn fróðasti maður um garðhleðslur kallaður til og þótti honum augsýnilegur galli hversu lóðréttir garðarnir væru sjávarmeginn og þyrftu þeir að hlaðast með meiri flága, auk þess væri til mikilla bóta að steinlíma þá með sementssteypu. Bjarni Eggertsson sem einnig var vel aðsér um garðhleðslur og hafði tilsjón með viðhaldi sjóvarnargarðanna fyrir landi Einarshafnar fyrir hönd Búnaðarfélags Íslands sem kostaði gerð þeirra, lagði til að þeir yrðu byggðir upp ávalir og þannig myndu þeir standast betur þunga sjávarinns. Ekki var þó farið í þá framkvæmd að steinlíma sjóvarnargarðana á Bakkanum nema rétt í endana, í svokölluðum 'hliðum' en tvö hlið voru á görðunum við Skúmstaði og var annað svokallað Vesturbúðarhlið þar sem gengið var út á bryggjuna, en hún var rifin fyrir allmörgum árum og Skúmstaðahlið gengt Skúmstalendingu, en þar fyrir innan var skipanaust allt frá kaþólskri tíð.

Garðarnir fyrir landi Einarshafnar sem voru endurhlaðnir eftir flóðið eru nú komnir á kaf í sand og uppgrónir svo af þeim sést vart tangur né tetur. Það gæti orðið staðnum mikið aðdráttarafl að grafa upp þessar fornminjar, a.m.k þeim megin sem snýr inn til lands og þannig fengju þessi mannvirki fyrri aldar að njóta sín til fulls.

Flettingar í dag: 996
Gestir í dag: 221
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261286
Samtals gestir: 33848
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:39:06