10.01.2008 21:56
Heimavarnarliðið á Eyrarbakka
Það var eitthvað í fréttum ekki alls fyrir lögu að við íslendingar ættum einn hermann sem í haust var kallaður frá störfum í hinu stríðshrjáða landi Írak og er hér náttúrlega um valkyrju að ræða og þokkadís af Bakkanum.
Fyrir margt löngu áttu Eyrbekkingar vel æfðann og vígreifan her, þó ekki stór væri og ekki hátt færi. Þegar fyrri heimstyrjöldin skall á 1914 tók J.D.Níelsen (f.1883) í húsinu sig til og æfði um 15 menn undir strangri herþjálfun að danskri fyrirmynd. Herflokkur þessi hlaut fljótt viðurnefnið "Leikfimiflokkurinn". Níelsen var þaulvanur æfingum úr danska hernum og þeim aga sem þar tíðkaðist. Þannig þjálfaði hann mannskapinn bæði í líkamsæfingum og byssuæfingum, sem og skotfimi. Æfingarnar minntu íbúa þessa friðsæla þorps einkennilega á ófriðarbálið út í heimi þegar Leikfimiflokkur Níelsens gekk marserandi fram og aftur með byssur við öxl í garðinum við Húsið. Ekki er vitað til að nokkur maður hafi meiðst við æfingarnar eða að nokkurn tíma hafi þurft að grípa til vopna þessa heimavarnarliðs í raun.
J.D. Nielsen verslunarstjóri hélt þessum æfingum áfram um nokkur ár og báru æfingarnar stöðugt meiri keim af íþróttum, en skotæfingar voru þó fastur liður eins og áður. Stöðugt bættust fleiri ungir menn í hópinn og voru einkum tveir sem sköruðu fram úr, en það voru þeir Níls Ísakson og Gísli Jóhannsson.
(Byggt á heimildum úr Suðurlandi 1915-1916.)