05.01.2008 17:02

Þorleifur ríki Kolbeinsson

Þorleifur KolbeinssonÞeir báru ekki alltaf mikið úr býtum, verkamennirnir á Eyrarbakka í eina tíð og þannig var það þegar sjógarðarnir voru hlaðnir á Bakkanum. (1830 og síðar.) Verkamenn við hleðsluna í þá tíð töldu laun sín vart hrökkva fyrir fatasliti. Þó var þar í hópi einn maður sem lést vel við una. Það var Þorleifur Kolbeinsson (1798-1882),sem þá var ungur maður, seinna kaupmaður á Háeyri og gekk þá undir nafninu Þorleifur ríki. Sagt var að á kvöldin eftir að vinnu lauk, hafi hann gert leit umhverfis búðir verslunarinnar að skinnsneplum og vaðmálssnifsum sem lestarmenn höfðu látið eftir liggja, en notuðu annars undir reiðinga. Hafði Þorleifur sitthvað upp úr þeirri leit og sat á kvöldum við að bæta flíkur sínar og skó með ræksnum þessum, enda mun honum hafa enst sami búnaðurinn meðan á vinnu hans stóð, sem var eitthvað á þriðja ár.

Eitt sinn þegar Þorleifur ríki Kolbeinsson frá Háeyri stóð yfir fátækum sveitabónda einum sem var að losa um böndin á böggum sínum fyrir utan búðina hans á Eyrarbakka með þeim hætti að skera á böndin með kuta sínum, lék bóndanum forvitni á að vita hvernig Þorleifur hefði orðið svona ríkur sem sögur fóru af og innti hann Þorleif svars. "Ég leysti hnútana en skar þá ekki" svaraði Þorleifur.

Þorleifur var á sínum tíma hreppstjóri Stokkseyrarhrepps og átti hann ótal jarðir, þar með talið Þorlákshöfn. Hafði hann góðar tekjur af jörðinni, einkum af gjöldum sem hann heimti af formönnum sem þar lögðu upp og höfðu þar aðstöðu. Efri-Vallarhjáleigu í Gaulverjarbæjarhreppi arfleiddi hann að Barnaskólanum á Eyrarbakka og hálft afgjald jarðarinnar átti að nota til að kosta fátæk börn til náms en hinn hlutann átti að setja á vöxtu. Kvað hann svo á um að aldrei mætti jörðin seljast og skildi um aldur og ævi vera eign Barnaskólans á Eyrarbakka.

Flettingar í dag: 29
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 2159
Gestir í gær: 262
Samtals flettingar: 262478
Samtals gestir: 33896
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 00:45:13