02.01.2008 12:44

Á þessu ári.

Kvenfélag Eyrarbakka verður 120 ára 25. apríl nk. Stofnendur félagsins voru 12 konur og meðal þeirra var Eugenia Nielsen fædd á Eyrarbakka 1850 og ein af dætrum Guðmundar Thorgrímsen verslunarstjóra og Sylvíu konu hans. Eugenia var hjálparhella fátækra og sjúkra þorpsbúa. Hún sat yfir hinum veiku og hjúkraði og sendi eftir meðulum. Einhverju sinni var Eugenia spurð hvort hún væri læknir, þá svaraði hún: "Nei það er ég ekki, en ég hef vit á því hvenær þarf að sækja lækni"!  Formaður Kvenfélags Eyrarbakka er Eygerður Þórisdóttir

Ungmennafélag Eyrarbakka verður 100 ára þann 5.maí nk. Núverandi formaður er Bjarni G. Jóhannsson.

Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka verður 80 ára. Hún var stofnuð 21.desember 1928 fyrir tilstuðlan Jóns E Björgvinssonar erindreka SVFÍ. Fyrstu stjórn deildarinnar skipuðu Þorleifur Guðmundsson fv.alþ.m. Jón Hegason skipstjóri og Jón Stefánsson ritari. Áður hafði Bergsteinn Sveinsson í Brennu verið skipaður umboðsmaður SVFÍ á Eyrarbakka. Formaður sveitarinnar í dag er Guðjón Guðmundsson.

Óseyrarbrú verður 20 ára. Brúin er 360 metra löng og kostaði smíði hennar um 280 miljónir króna. Öflug barátta fyrir brúargerðinni hófst upp úr 1975 (brúin hafði í raun verið lengi á óskalista og komst á brúarlög árið 1952 fyrir tilstilli Sigurðar Ó. Ólafssonar og Jörundar Brynjólfssonar) og var markmiðið með henni að efla atvinnustarfsemi á Eyrarbakka og Stokkseyri tengdri útgerð frá Þorlákshöfn. Einn ötulasti baráttumaður fyrir brúnni var Vigfús Jónsson fyrrum oddviti á Eyrarbakka.




Brimið á Bakkanum óskar svo öllum lesendum sínum gleðilegs árs.

Flettingar í dag: 160
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 2159
Gestir í gær: 262
Samtals flettingar: 262609
Samtals gestir: 33913
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 02:35:58