14.11.2007 16:05
Bergþór risi og stafurinn góði.
Í Bláfelli í Biskupstungnaafrétti bjó eitt sinn bergrisi eða jötun sem Bergþór hét og er hann sá sem getið er í Ármannssögu og glímdi við Orm Stórólfsson en þar segir frá leikum, sem fóru fram á Hofmannaflöt, þegar helstu tröll landsins hittust þar. Bergþór átti járnsleginn staf mikinn þeirri náttúru gæddum að með honum mátti hola fjöll.
Sú er sögn manna að Bergþór hafi eitt sinn farið í kaupstað suður á Eyrarbakka og keypt þar korntunnu og lagt hana á bak sér og borið hana norður í Bláfell og aðeins hvílt sig tvisvar á leiðinni til þess að fá sér að drekka. Í fyrra sinnið hjá Kolsholtshelli í Flóa og er sagt að hann hafi klappað þar með staf sínum í jörð sem lék þá á skjálfi og hellir myndaðist undir. Í síðara sinnið hvíldi hann sig þar sem er Bergstaðir í Biskupstungum og klappaði með staf sínum svo að ker myndaðist þar í jörðu. þá mælti Bergþór svo fyrir að aldrei mundu vatn og sýra geta þar blandast saman og lagði þau álög að verða muni kúgildisskaði verði kerið egi notað.
Enn er Bergþór á ferð og nú um Hellisheiði þvera og endilanga með stafinn sinn góða og rekur hann níður hvarvetna svo af verða ker er ná niður undir súðir vítis, þaðan sem gufustrókar stíga til himins í þursa líki. það yrði vissulega kúgildisskaði fyrir þjóðina verði þessi orka ekki nýtt, en ekki eru allir samála um þann kost, því gallalaust er það ekki. Af Bergþóri nútímans leggur nefnilega mikinn og kæfandi óþef sem ökumenn um Hellisheiði verða varir við ef vindátt hagar þannig. Þessum óþef valda uppleyst brennisteinsefni svo sem SO2 sem er brennisteinsvetni. Önnur mengun sem kemur af jarðvarmavirkjunum eins og þeim sem nú rísa á Hellisheiði er t.d. arsenikmengun í fljótandi formi. Óvarlegt er að haga málum þannig á 21. öldinni að skaðleg efini berist óhindrað út um borg og bý.
________________________________________________________
Kerið í þjóðsöguni var notað til geyma sýru (mysu), og varð að passa að vatn kæmist ekki í kerið og blandaðist við sýruna því þá fraus hún. Ekki má vanrækja að setja sýru í kerið því þá verða einhver óhöpp. Það hefur aðeins gerst þrisvar sinnum á síðustu árum. Í öll skiptin hefur bóndinn á Bergstöðum misst eitthvað af búfé sínu.
Í gamla daga var vinsælt að blanda mysu saman við vatn, og varð þá til svaladrykkur sem kallaðist sýra og þótti bara góður, en annars var mysan notuð til að geima matvæli og kallaðist það súrmatur.
Sagt var að hrigurinn úr staf Bergþórs hafi verið settur á kirkjuhurðina í Haukdal eftir hans dag.
Heimild:Þjóðólfur 33.árg 1881. Heimskringla.no
Aðra sögu af Bergþóri risa má finna á http://www.nat.is/Kirkjur/Kirkjur%20SL%20haukadalskirkja.htm