01.09.2007 00:18

Sú var tíðin á ströndinni.


Á ströndinni þar sem brimið svarrar og tröllaukin úthafsaldan utan af Atlantshafi teygjir hvítfextan fald sinn á þessum fyrstu haustdögum standa sjávarþorpin Eyrarbakki og Stokkseyri eins og hljóð systkyni hlið við hlið og bíða þess að eftir þeim verði tekið.

Sú var tíðin að þessi þorp voru aðeins tvö í Flóanum og áttu sitt blómaskeið en svo kom tími hnignunar eins og hjá svo mörgum sjávarþorpunum nú til dags. Bakkinn var á sínum tíma snertipunktur Suðurlands við umheiminn. Þangað komu skip og þaðan fóru skip yfir Atlantsála suður til framandi landa og þar var miðstöð verslunar og viðskipta fram eftir öldum. Á Bakkanum er líka eina húsið á landinu sem skrifað er með stórum staf, þar stóð vagga menningar við músik og selskapslíf fína fólksinns. Á Stokkseyri bjó þá Þuríður formaður, Jón í Móhúsum og draugurinn Móri þar sem sjósókn, landbúnaður og verslun var stunduð af mikilli eljusemi.

Svo kom sá dagur að verslunin hvarf á braut til hins nýja staðar sem Selfoss heitir og þá hljóðnaði músikin í heilan mannsaldur frá píanóinu góða í Húsinu. En þorpsbúar lögðu ekki árar í bát heldur efldust í útgerð og fiskvinnslu, byggðu höfn og frystihús og virtust bara geta horft björtum augum til framtíðar, en svo fór allt öðruvísi en ætlað var og þessi undirstöðu atvinnuvegur þorpana hvarf í kalda brimöldu kvótakerfis og uppkaupa Sægreifa.

Þá var brugðið á það ráð að sameina Flóafjölskylduna í það sem Árborg heitir í von um að hefja mætti þessi þorp til vegs og virðingar á ný og á meðan brimið þvær hin skreypu sker tóku heimamenn, einkum á Stokkseyri að sækja ný mið sem byggir á ferðaþjónustu. Þar er Töfragarðurinn og Drauga og álfasafn svo eitthvað sé nefnt og á báðum stöðum eru eftirtektaverðir veitingastaðir og ekki má gleima Húsinu með stórum staf og Sjóminjasafninu á Bakkanum.

Þorpin sjálf eru þó mesta aðdráttaraflið, gömlu húsin, sjóvarnargarðurinn, fjaran og brimið og þennan vísir að ferðamannaiðnaði þarf að hlúa að og byggja undir. Það sem hér þarf að rísa er ferðamannamiðstöð þar sem ferðafólk getur haft athvarf, hreinlætisaðstöðu og fengið upplýsingar um það sem þorpin hafa upp á að bjóða, merkja gönguleiðir og sögulega staði annara en Hússins og Þuriðarbúðar sem nú þegar eru gerð góð skil og mætti nefna þar til Sandvarnargarðinn, höfnina fornu, sjógarðinn og þau hús sem hafa sögulega tilvísun ásamt helstu örnefnum á gönguleiðum og stígunum sem var eitt sinn lofað. Nú mættu forsvarsmenn sveitarfélagsinns líta upp frá þungbæru miðbæjarskipulagi Selfoss litla stund og koma að þessu máli og hrinda í framkvæmd.

Flettingar í dag: 95
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 2159
Gestir í gær: 262
Samtals flettingar: 262544
Samtals gestir: 33907
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 01:51:47