16.06.2007 00:10
Hagnast á hlýnun!
Það er ekki alveg samkvæmt ritgerð Al Gore's, að hlýnun jarðar hafi mögulega nokkra kosti.
Það gæti nú samt verið bærilegra að búa á norðlægum slóðum svo sem á Íslandi í framtíðinni ef hlýnunin heldur áfram sem horfir. Til dæmis yrði nánast óþarfi að hafa áhyggjur af því að snjótittlingar hafi ekki nóg að borða yfir blá veturinn. Nytjaskógrækt gæti orðið arðbær atvinnugrein hér á landi og landbúnaðarhéruðin munu blómstra í gróskumikilli akuryrkju út við heimskautsbaug, þá gæti Akureyri haft sitt nafn með rentu.
Kostnaður við húshitun mun minka jafnt og þétt og snjómokstur gæti heyrt sögunni til eftir nokkur ár og við íslendingar getum hætt að nota nagladekk og sparað okkur og þjóðarbúinu stórfé og um leið dregið úr svifriksmengun.
Flutningaskip geta bráðum siglt skemri leið milli Atlantshafs og Kyrrahafs og sparað tíma, peninga og eldsneyti öllum til hagsbóta og dregið þannig úr mengun. Á Íslandi sem yrði þá í alfaraleið væri hægt að setja á fót risastóra miðlunarhöfn fyrir vörur sem mundi skapa mikla atvinnu.
Það væri hinsvegar verra ef stjórnmálamönnum dytti í hug að hirða þennan hagnað almennings með einhverskonar hlýnunarsköttum.