04.06.2007 13:04
Súld og suddi
Þeir eru heppnir sem eiga regnkápur og ullarhosur og geta því verið úti.
það hefur nefnilega verið úrkomusamt á suðvesturhorninu síðasta sólarhringinn með strekkings vindi af suðaustri og lítur út fyrir að svo verði áfram næstu daga.
Ástæðan er þessi mikla lægð suðvestur af landinu og hæðirnar tvær sem loka fyrir leið hennar austur á bóginn. Þannig á lægðin ekki aðra möguleika en að blása úr sér þar sem hún er niður komin.
Ástandið á því eftir að batna þegar eftir miðja vikuna,en hitastig breytist þó lítið ef marka má veðurstöðina Falling.rain.com
Lægðin hefur valdið töluverðu sjávarróti með tilkomumiklu 3-4 stigs brimi á Bakkanum samkv. brimskala P.Nielsens fyrrum faktors í Húsinu á Eyrarbakka og veðurathugunarmanns dönsku veðurstofunar á sínum tíma.
Veðurspáin fyrir Sjómannadaginn hér fyrir neðan fór nú heldur betur í vaskinn, þar sem vel hvessti síðdegis með helli rigningu og hitastigið féll niður fyrir 10°C.
Nýliðinn maímánuður var fremur kaldur á landinu að sögn Veðurstofunnar. Mjög hlýtt var um land allt fyrstu daga mánaðarins og einnig um mikinn hluta landsins síðustu dagana. Einkum var kalt á tímabilunum 4 til 11. og 19. til 27. og snjóaði þá sums staðar.
Á Bakkanum var hlýjasti dagurinn 31.maí en þá náði hitinn hámarki í 17,7°C en kaldast var þann 21. þegar hitinn féll undir 4°C og var sumstaðar í 0°C í næsta nágreni. Annars var hitastigið oftast um 10°C
Yfirlit Veðurstofunar umTíðarfarið í maí