02.02.2006 22:01
Fluttningabrautin.
Ísafold, 8. janúar, 27. árg, 1. tbl., bls. 2 (1900)
Hér er birt greinargerð um Flutningabrautina upp Flóann, sem formaður þeirrar vegagerðar, Erlendur Zakaríasson, samdi fyrir landshöfðingja. Lýsingin á þessari vegagerð frá Eyrarbakka og Stokkseyri upp að Ölfúsárbrú er bæði ítarleg og fróðleg.
Flutningabrautin upp Flóann.
Það er allmikið mannvirki, brautin sú, frá Eyrarbakka upp að Ölfusárbrú, er unnið hefur verið að tvö sumur undanfarin og lokið var við í haust.
Hefur formaður þeirrar vegagerðar, hr. Erlendur Zakaríasson, samið og sent landshöfðingja ítarlega skýrslu um það verk, er hér birtist nálega orðrétt, með því að þar er ýmislegur fróðleikur, er gæti orðið ýmsum góð bending, bæði þeim, er við þann veg eru riðnir og öðrum.
Byrjað var að leggja veginn frá Eyrarbakka, rétt fyrir framan Hópið (vatn milli Eyrarbakka og mýrarinnar) fyrir austan Steinskrift, og haldið upp og austur hraunið að Litlahraunsstekk, og þaðan í beina stefnu austan til við Sandvíkurnar og upp að Ölfusárbrúnni.
Landið, sem þessi vegur liggur eftir, er fyrst hraun, að Litlahraunsstekk. Þaðan og upp að svonefndum Geirakotsskurði mest blaut mýri, en þaðan og upp að Ölfusárbrú móar og þurrlend mýri.
Landslagið á þessu svæði er mjög slétt, og aðeins dálítill jafn halli upp að Ölfusárbrúnni.
Við Ölfusárbrúna er landið 16 fetum hærra en þar sem byrjað var á Eyrarbakka.
Öll vegalengdin er að kalla réttir 6000 faðmar eða 1 1/2 míla. Eftir þessu er hallinn sem næst því 1:700.
Á þessum vegi eru 23 þverrennur frá 5-12 feta langar.
Það var miklum erfiðleikum bundið að vinna þetta verk, af þeim ástæðum, að allt efni vantaði í yfirbygginguna meira en helming af leiðinni.
Grjóti í yfirbygginguna og þverrennurnar var ekið frá báðum endum að vetrinum til, mest í akkorð vinnu og að nokkru leyti fyrri veturinn í tímavinnu.
Vegalengdin að aka grjótinu 500-1800 faðmar; 8-18 krónur borgaðar fyrir hvern teningsfaðm.
Verkinu var þannig háttað, að hliðveggir vegarins voru hlaðnir úr sníddu og sumstaðar þaktir með torfi og hafður 4 feta breiður bekkur beggja megin við veginn. Skurðirnir fram með veginum 7-10 feta breiðir. Breidd vegarins 12 fet.
Í yfirbygginguna var mulið grjót 10" þykkt alla leið, nema í 450 föðmum efst við Ölfusárbrúna; þar var hafður tómur ofaníburður (möl og leir).
Ofan á mulninginn voru látnar þunnar mýrarflögur, svo ekið stórgerðum sandi þar ofan á (mjög þunnt) upp að miðju. Þeim sandi varð að aka neðan af Eyrarbakka. Lengstur akstur 3 1/2 klukkustund með ferðina.
Frá miðju og upp úr, sem mulningurinn náði, var tekinn leir úr flögum og hafður yfir mulninginn. Það verður dálítil for á veginum fyrsta árið, en ekki djúp því leirinn er þunnur. Sama efni var haft á Hellisheiði austan til og hefur reynst vel.
Þessi vegagerð hefur kostað um 38.000 krónur eða 6,33 kr. faðmurinn upp og ofan.
Á svæðinu frá Litlahraunsstekk og upp að Stekkunum kostaði faðmurinn um 8,75 kr.
Þessi vegur hefur því orðið dýrastur þeirra vegakafla, er hér hafa verið lagðir, fyrir utan Kambaveginn og eru margar ástæður til þess: 1, að efni hefur orðið að sækja langan veg; 2, að veðrið hefur verið óhagstætt bæði sumrin, einlægar rigningar; 3, að kaupa hefur orðið land undir veginn fyrir nokkuð hátt verð, 1.100 kr.
Bæði sumrin hafa unnið að þessu verki 40-60 menn, og 18-22 vagnhestar og 8-10 vagnar.
Kaup verkamanna kr. 2,60-3,00; unglingar kr. 1,60-2,25; menn sem unnið hafa vorið og haustið kr. 2,25-2,35.
Þeim sem áttu landið undir veginn verður fæstum sagt það til hróss, að þeir hafi verið vægir í kröfum með borgun fyrir landið. Það leit svo út um suma, að þeir vildu
Ég vil leyfa mér að geta þess hér, að það ríður á, að hirða vel um þverrennurnar að vetrinum til á svæðinu frá Litlahraunsstekk upp að Stokkum, að ekki sé klaki í þeim, þegar hláku gerir, svo vatnið geti komist í gegnum þær, en ekki hlaupið fram með veginum að austanverðu og orðið þar af leiðandi of mikið og runnið yfir veginn.
Til bráðabirgða setti ég mann til að gæta þeirra í vetur, með 17 króna borgun yfir tímann.
Ennfremur þarf að líta eftir á haustin á þessu svæði, að stíflur, sem rifnar hafa verið úr af sláttufólki, verði umbættar á haustin.
Ennfremur ætti að banna mönnum að stífla vegaskurðina, eins og þeir gerðu í vor, til að veita á engjar sínar; það skemmir veginn, þegar vatnið stendur langt upp í vegahliðarnar, og þegar annaðhvort fara úr stíflur af of miklum vatnsþunga eða þær eru aldrei teknar úr, fyllast skurðirnir af hnausum og flytja þar af leiðandi minna vatn.
Að lokum vil ég leyfa mér að geta þess, að áríðandi er halda þessum mulningsvegum (púkkvegum) við (eins og öllum vegum) með því að bera þunnt lag af ofaníburði ofan á, þar sem mulningurinn verður ber og fer að losna; ef það er gert verður vegurinn nærri óbifandi.
Frá flutningabrautinni var lagður (ólæsileg tala) álna breiður og rúmlega 760 faðma langur vegur ofan undir Hraunsárbrýrnar, áleiðis til Stokkseyrar.
Þeir sem kostuðu þennan veg voru kaupmennirnir á Stokkseyri, sýslusjóður Árnessýslu og Stokkseyrarhreppur.
Þessi vegur er mjög vel gerður, þeim til sóma sem unnu verkið, og lögðu fram fé til þess.
Sú vegagerð kostaði sem næst 3.000 krónur.
Verkstjóri var þar Ketill Jónasson.
Sömuleiðis var gerður vegur frá neðri enda akbrautarinnar að verslunarhúsum Lefolii. Sú verslun og hreppurinn kostaði það verk.
Ekki verður sagt hið sama um þennan veg og Stokkseyrarveginn, að hann sé vel gerður. Það er öðru nær. En öðru verður ekki um kennt en of miklum sparnaði frá þeirra hálfu, sem kostuðu hann.
Kaupa þurfti land undir veginn frá Stóru Háeyri fyrir nærfellt 800 krónur.