19.12.2005 19:51
Álpönnuverksmiðjan
Alpan hf. hefur ákveðið að flytja álpönnuverksmiðju sína frá Eyrarbakka til bæjarins Targoviste í Rúmeníu. Framleiðslu hér verður hætt í mars og hún hafin aftur í maí í húsnæði sem keypt hefur verið í Rúmeníu.
Alpan hf. var keypt frá Danmörku árið 1984 og hóf starfsemi sína sama ár á Eyrarbakka. Verksmiðjan í Danmörku hafði þá framleitt undir vörumerkinu LOOK í 35 ár og fyrirtækið því orðið 50 ára gamalt.
Alpan hf. hefur starfað á Eyrarbakka síðastliðin 20 ár og framleitt hágæða eldunaráhöld sem næstum öll fara á erlendan markað og hafa verið seld í yfir tuttugu löndum víðsvegar um heim. Þegar flest var hjá fyrirtækinu voru starfsmenn um 50.
Nú vinna 25 manns hjá Alpan og því ljóst að þetta er umtalsvert áfall fyrir Eyrarbakka.
Við hljótum að harma þessa ákvörðun fyrirtækisinns og það fordæmi sem í henni felst. Þó er líklegt að flestir sem starfa hjá fyrirtækinu fái vinnu annarstaðar enda atvinnuástand á svæðinu tiltölulega gott.
Alpan var upphaflega sett á fót til að styrkja atvinnuvegi á Suðurlandi og kom sér vel fyrir Eyrbekkinga sem voru á þessum tíma að missa útgerðina burt úr plássinu.