Færslur: 2010 Mars

31.03.2010 00:01

Togarinn Loch Morar strandar

Lock Morar- http://www.llangibby.eclipse.co.uk/Technical%20details/joseph_barret_lo252.htmAð morgni 31.mars 1937 veittu menn á Eyrarbakka því eftirtekt að skip var strandað í brimgarðinum milli Eyrarbakka og Stokkseyrar, um það bil 500 faðma frá skerjagarðinum út undan Gamla Hrauni á stað sem kallast Framnesrif eða Hraunstangar. Var þegar brugðist við til að grenslast frekar eftir þessu, en sökum brims var ekki hægt að komast nærri skipinu. Bjuggust menn helst við að skipið hafi farið þar upp um nóttina, en þá hafði gengið á með suðaustan stormi. Aftaka brim gekk yfir skipið og þótti mönnum til þess lítil von að nokkur gæti verið þar á lífi lengur og vonlaust um björgun þó strandið hefði uppgötvast fyrr. Þegar líða tók á daginn fóru ýmsir hlutir að reka úr skipinu, þar á meðal björgunarhringur. Kom þá í ljós að skipið var enski togarinn Loch Morar Lo 252 frá Aberdeen. Magnús Oddson var þá hreppstjóri á Eyrarbakka og hafði hann tal af manni frá Stokkseyri sem fyrr um nóttina hafði séð ljósagang á þessum stað, líklega flugelda, en vitneskja um þetta hafði ekki borist yfirvöldum á staðnum fyrr en um seinan.

    Af 12 manna áhöfn komst enginn lífs af og voru lík þeirra að reka á land öðru hvoru þá um sumarið.Tvívegis tókst björgunarmönnum frá Eyrarbakka að komast um borð í skipið á stórstraumsfjöru, en þá stóð aðeins stjórnborðshliðin upp úr sjó. Björgunarmenn náðu að saga gat á hvalbakinn og komust þaðan í þau rými sem stóðu upp úr sjó en fundu engin lík. Skipið liðaðist smám saman í sundur og hvarf í hafið.

Loch Morar lagði úr höfn í Aberdeen 22. mars áleiðis til Íslandsmiða undir stjórn Walter Edward Barber sem var reyndur og dugandi skipstjóri. En hvað varð til þess að skipið strandaði í brimgarðinum á Eyrarbakka verður víst aldrei vitað.

Minningarathöfn vegna skipverjanna sem fórust með Loch Morar var haldinn í Aberdeen þann 11 apríl fyrir tilstuðlan Royal National Mission to Deep-Sea Fishermen. Lík skipverjanna voru jarðsett á Eyrarbakka.


Nöfn sem skipið hafði áður borið voru: Giovanni Guinti 1918, Idaho 1919 Cymrea 1920, Sir Mark Sykes 1932, og síðast Loch Morar (A361) 1935. Skipið var byggt hjá Ailsa Ship Building Co Ltd 1918 og var 277 tonn að stærð.


Himild: Alþýðublaðið 74.tbl.1937. http://www.llangibby.eclipse.co.uk/Technical%20details/joseph_barret_lo252.htm

www.eyrarbakki.is www.llangibby.eclipse.co.uk/index_to_all_milford_trawlers.htm brim.blog.is/blog/brim/entry/696836/ brim.blog.is/blog/brim/entry/696836/

29.03.2010 23:38

Eru Íslendingar illa klæddir

Íslenska lopapeysan gerði Íslendingum mögulegt að lifa af í kulda og vosbúðÍsland er vindasamt land og oft getur verið kalt í veðri þó hitamælirinn sýni annað, en þar koma til áhrif vindkælingar. NýlegaVindkæling á við -20°C var sagt frá manni sem fékk sér göngutúr upp á Fimmvörðuháls til þess að skoða gosið. Hann var illa búinn, klæddur í leðurjakka og strigaskó og lagði þar með líf sitt í hættu án þess að gera sér grein fyrir því. En það þarf ekki hálendi til, því fólk hefur orðið úti jafnvel í byggð. Vindkæling er samspil hitastigs og vindstuðuls sem í grófum dráttum er, að því meiri vindur og því lægra hitastig, því meiri vindkæling. Veðurstofan hefur ekki tekið upp fyrir reglu að gera vinkælingarspá, en þó bar svo við að það var gert í veðurfregnum fyrir skemmstu og því ber að fagna.

Í dag var þannig veðurlag að vindkælingar gætti mjög t.d. á Eyrarbakka sem dæmi, þá var hitinn frá +3 til -6°C og vindur alt að 15 m/s. Þannig var vindkælingin í dag til jafns við frost um15-20° C

28.03.2010 23:00

Gluggaveður

Íslenski vindpokinnÞað er kallað "gluggaveður" þegar veðrið er fallegt og sólin skín án þess þó að viðri til útiveru. Þannig var veðrið hjá okkur um helgina. Hvöss norðanátt með vindhraða upp í 11 m/s og hviður upp í 15 m/s. Ekki var heldur hægt að hrópa húrra fyirr hitastiginu sem lafði undir 2°C þegar best lét. Ekki er gert ráð fyrir að dragi úr norðanáttinni fyrr en um páska, en þangað til má bara njóta veðursins út um gluggann.


Eyrarbakki BB










Á þessu grafi má hvernig hitistigið (rauða línan) reis upp fyrir frostmark um hádegi í dag og lúrði þar á undir nón.

27.03.2010 00:28

Fer Katla á kreik ?

Elstöðin á Fimmvörðuhálsi, Höfundur myndar Steinþór GíslasonKötlugosið 1625 mun vera það sem glöggar sagnir eru um, en af heimildum má ráða, að Katla hafi oft gosið áður eftir að land var numið. Fyrsta hlaupið niður Mýrdalssand eftir að land byggðist hefur trúlega orðið árið 1000. Sigurður Þórarinsson hefur i ritinu Jökli 1959 gert yfírlit yfir þau Kötlugos, sem sennilegt er að hafi orðið en tiltekur þó ekki gos árið 1000.
Fyrsta hlaupið, sem söguleg vissa er fyrir að farið hafi niður Mýrdalssand, mun hafa orðið laust fyrir árið 1179. Eitt þeirra Kötlugosa, sem óglögglegar heimildir eru um, er gos sem olli svonefndu "Sturluhlaupi" árið 1311. Um það segir m.a.: "að tók af alla byggðina, sem eftir var á Mýrdalssandi. Það svæði var kallað Lágeyjarhverfi". "Um vorið var farið að leita, þar sem bæirnir höfðu staðið, því að hlaupið hafði svo gersamlega sópað burtu bæjum, húsum, engjum og högum, mönnum og öllum fénaði, að það sást ekki að þar hefði nokkurntíma byggð verið, heldur aðeins eyðimörk, hulin sandi og vikri, marga faðma djúpt niður".


Kötlugosið 1918 er líklega eitt mesta eldgos, sem orðið hefir hér á landi síðan 1875. Laust eftir hádegi laugardaginn 12. okt. 1918 fundust snarpir jarðskjálftakippir í Mýrdal, og litlu síðar sást mökkur yfir Mýrdalsjökli. Var hann hvítleitur í fyrstu, en sortnaði síðan, og þótti mönnum þá augljóst, að Katla væri komin á stúfana. Um nónbil hljóp jökullinn. Kom vatnið fram í tveim stöðum: austast og vestast á sandinum. Vestara hlaupið braust fram milli Hafurseyjar og Höfðabrekkuafréttar, uns það skall á Selfjalli. Féll þá nokkur hluti þess yfir í farveg Múlakvíslar og eftir honum til sjávar, en meginfóðið ruddist suður sandinn, milli Selfjalls og Hafurseyjar, og á haf út beggja megin við Hjörleifshöfða. Náði það, að sögn, frá hæð þeirri á sandinum, sem Lambajökull nefnist, og vestur undir Múlakvísl, svo að þessi hluti hlaupsins hefir verið um 12 km. á breidd við fjörur frammi. Austara hlaupið féll fram úr jöklinum nálægt Sandfelli. Lagði það undir sig austanverðan sandinn og klofnaði í ýmsar kvíslar um öldur og fell. Nyrsta kvíslin féll í Hólmsá, fyllti gljúfur hennar og svipti burt brúnni, en aðalvatnið tók stefnu á Álftaverið, og féll sumt fram yfir það og út í Kúðafljót, einkum eftir farvegum Skálmar og Landbrotsár, en sumt rann beint út í sjó vesur af Álftaveri, og er talið, að það hafi náð vestur að svonefndu Dýralækjarskeri.


Sagan kennir okkur að gos í Kötlu koma jafnan eftir gos í Eyjafjallajökli. En hvort gosið á Fimmvörðuhálsi sé undantekning er alveg óvíst.

Heimild: Tíminn Sunnudagsblað , 5. tölublað 1969- Náttúrufræðingurinn 1-3 tbl 1934

24.03.2010 23:45

Hlýr mars

Það var hlýtt og gott veður í dag og fór hitinn í 11°C um hádegi. Það telst dagsmet, en eldra dagsmet var 10,5 þennan dag 2005. Mesti hiti sem VÍ hefur mælt hér í mars er 11.8°C og var það þann 31. 1965. Grasið er nú farið farið að grænka á Bakkanum, en framundan er kólnandi veður og hætt við að komi afturkippur í gróðurinn.

24.03.2010 22:51

Gufubáturinn s/s Njáll

Eftir að Eyrarbakkaverslun missti strandferðabátin Odd upp í Grindavíkurfjöru 1904 var þegar hafist handa við að útvega nýjan gufubát og árið eftir var keyptur bátur frá Leith í Skotlandi og fékk hann nafnið Njáll. Hann var 21.47 lestir nettó, eða nokkru stærri en Oddur og með gufuvél. Njáll kom í fyrsta sinn til Eyrarbakka 30. apríl 1905 og hóf fljótlega að vinna sömu störf og Oddur, þ.e.a. sinna strandsiglingum og aðstoða kaupskipin á Eyrarbakka. Hann sleit frá legufærum sínum ( Miðlegan svokölluð) á Eyrarbakkahöfn 13. sept. 1906 í suðaustan stórviðri og hafróti. Svo flóðhátt var, að hann barst yfir öll sker án þess að koma við, og kom heill upp í sand með fulla lestina af rúgmjöli, sem hann hafði komið með frá Reykjavík daginn áður og var því öllu skipað á land. Aðrir bátar skemdust mikið á Eyrarbakka í þessu veðri. 13 opin skip kvað hafa brotnað þar auk skútu sem var með vörur til Ólafs Árnasonar kaupmanns á Stokkseyri. Næsta vor náðist Njáll á flot, en ekki varð meira úr strandferðum hans, en í staðinn var keyptur mótorbátur, sem hét "Hjálpari".

Skipstjórinn á Njáli var danskur, og þótti að mörgu leyti góður drengur og prúðmenni, en vínhneigður um of. Stýrimaðurinn var Sigurjón P. Jónsson, duglegur og góður drengur fæddur og uppalinn á Eyrarbakka, en hafði verið í siglingum erlendis, og lokið þar stýrimannsprófi. (Sigurjón var síðar vel þekktur, sem skipstjóri á flóabátnum "Ingólfi"). Á skipinu var, auk skipstjóra og stýrimanns, 10 manna áhöfn: 4 Danir og 6 Eyrbekkingar, meðal þeirra Jón Sigurðsson síðar hafnsögumaður, og Jóhann Guðmundsson frá Gamlahrauni og Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli.
 
Heimild: Ingólfur 4.tbl 1906  Ísafold , 59. tbl. 1906  Sjómannablaðið Vikingur (Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.) Á sjó og landi- Tímagreinar eftir Sigurður Þorsteinsson.

21.03.2010 21:43

Horft til eldstöðva

Mökkar úr eldinumEkki er hún Katla kvik, en kveikt er undir Eyjafjallajökli. Hér má sjá gufumökkinn eins og hann kom fyrir sjónir, séð frá Eyrarbakka um hádegisbil.

21.03.2010 00:42

Bakka-Oddur

Einarshöfn Eyrarbakka
Strandferðabátar Lefolii verslunar voru í þessari röð: "Skjöldur" gufubátur í notkun um og eftir 1884. "Den Lille"  frá 1889 og var skipstjóri á honum Bjarni Elíasson. "Oddur" gufubátur um og eftir 1895 og var dani
Theilland Hansen að nafni skipstjóri á Oddi. "Njáll" einig gufubátur í notkun frá 1905 og til ársins 1906 er hann strandaði á Eyrarbakka. "Hjálparinn" vélbátur tekinn í notkun 1907 og var skipstjóri lengst af Jón Sigurðsson í Túni. Þessir bátar sigldu á flestar nálægar hafnir, svo sem  til Þorlákshafnar, Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Keflavíkur, Þórshafnar, Sandgerði og Reykjavíkur venjulega einu sinni í mánuði yfir sumarið. Þess utan var siglt til Stokkseyrar, Landeyjar (Hallgeirseyjar), Vestmannaeyja, Þorlákshafnar, Selvogs og Grindavíkur þegar svo bar undir. Stundum var siglt undir Eyjafjallasand (Holltsvör) Víkur í Mýrdal, Loftstaða, Gaðs, Hafnarleirs og jafnvel til Borgarness. Voru ferðir þessar eftir samningi við Sýslunefndir og jafnan auglýstar í dagblöðum. Ferðir þessar hafa örugglega skipt miklu máli fyrir veglausar byggðir Suðurlands á sínum tíma.

Gufubátnum Oddi á

ég mun héðan flakka,

þegar kæri knörrinn sá

kemur frá Eyrarbakka.

(Jón Þórðarson Fljótshlíðarskáld)

Oddur LBHCOddur var 35-40 tonn að stærð. Hann var talinn ágætis sjóskip og vel gerður að lagi. Skipstjóri á Oddi var danskur maður, Theilland Hansen, sömuleiðis vélstjórinn. Hásetar voru fjórir, allt íslendingar. Helsta verkefni bátsins var að aðstoða seglskipin sem athöfnuðu sig á Einarshöfn. Ferðalög með Oddi þóttu spennandi fyrir almenning sem gáfu sig oft til vinnu við uppskipun á salti út á verstöðvarnar. Eitt af mörgum verkefnum bátsins var að sækja skreið og herta þorskhausa til umboðsmanns verslunarinnar í Grindavík. Lefolii átti hús í Grindavík sem kallað var "Anleggshús" sem var vörugeymsla þar, en auk þess flutti báturinn salt og matvæli til vertíðarmanna. Í þessa ferð fór Oddur venjulega um lokin (Vertíðarlok 11. maí) og svo aftur á haustin. Með Oddi fóru einnig vertíðarmenn austan úr Árnessýslu. Í síðustu strandferð sinni haustið (9. nóvember) 1904 var Oddur á leið til Hafnafjarðar með viðkomu í Grindavík, en um þá ferð ritaði sr. Gísli Brynjólfsson frá Járngerðarstöðum í sjómannablaðið Víking:
 

"Veður var gott þegar báturinn kom, en þegar hann var nýlagstur gerði suðaustan rok og svo vondan sjó að báðar akkeriskeðjurnar slitnuðu. Var þá ekki að sökum að spyrja. Odd rak á land. En svo happalega vildi til, að hann komst yfir alla fjöru og lenti uppí kampi lítið brotinn og allir mennirnir komust í land óhraktir. En svo fór, að sjórinn braut hann að nokkru. Var hann svo rifinn og fluttur um borð í þýzka skonnortu, sem "Minna" hét, sem var að taka annað brotajárn til útflutnings. En nú tókst svo illa til, að nokkru eftir að Oddur var allur kominn þar í lest sem brotajárn, að aftur gerði versta veður. Þá sleit "Minnu upp og rak hana á land, einmitt í lendingunni í Járngerðarstaðahverfi. Varð þá Odddur strand í annað sinn. Og enn var hann fluttur út ásamt því skipi, sem áður hafði hann í lest sinni. Svo að ekki verður annað sagt en að örlög Bakka-Odds hafi orðið allsöguleg áður en lauk".

Heimild: Sjómannablaðið Vikingur 6.tbl.1972 sr.Gísli Brynjólfsson. -10.tbl 1972 Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri. Þjóðólfur 22.tbl. 1895

18.03.2010 22:05

M/b Hjálparinn - framhald

HjálparinnÞað vildi svo til á fyrstu árum vélbátanna að fiskurinn færðist mjög vestur á bóginn frá veiðistöðvum austanfjalls, svo ekki var fisk að fá fyrr en á miðum Þorlákshafnarmanna. Var það illmögulegt fyrir Eyrbekkinga og Stokkseyringa að eltast við hann vestur í Háaleitisforir og vestur undir Selvog og alveg útilokað fyrir áraskipin. Aðeins þeir vélbátar sem komnir voru til sögunnar höfðu aðstöðu til þess að elta fiskigönguna. Þegar fram á vertíðina kom, var gripið til þess ráðs, að láta mótorbátana draga árabátana vestur í Hafnarsjó. Þetta gafst vel, þegar tíð var góð, en þó var ýmislegt sem erfiðleikum olli. Það kom því til kasta Hjálparans að draga áraskipin vestur í sjó. Hann var venjulega með tvö og stundum þrjú skip í togi og lónaði hjá þeim meðan þau drógu net sín og athöfnuðu sig á miðunum. Þetta verkefni hafði hann í nokkrar vertíðir, en fór svo þverrandi eftir því sem vélabátum fjölgaði, og svo kom að því að engin áraskip voru eftir til að draga, því vélvæðingin varð algjör á fáum árum. Nokkur seglbúnaður var hafður á öllum vélbátum fyrsta kastið. Hjálparinn hafði upphaflega stórsegl og aftursegl, stagfokku og klýfir. Menn þurftu oft að grípa til þeirra, þótt það færi minnkandi er stundir liðu og vélar urðu fullkomnari. Hjálparinn gengdi líka mikilvægu hlutverki í samgöngum milli lands og Eyja, en hann gat tekið allt að 14 farþega í ferð.

Hjálparinn eftir breytinguVerslun Lefoliis, var seld 1919 kaupfélaginu Heklu, sem um nokkur ár hafði líka starfað á Eyrarbakka. Hún fékk sér stærri bát, sem henta þótti betur til þessarra flutninga. Hjálparinn var nokkru áður seldur til Vestmannaeyja þar sem honum var breytt í fiskibát. Á hann var sett stýrishús og aftursiglan tekin niður. Þá fékk hann stærri vél. Eigendur þar voru Lárus Halldórsson á Velli, að hálfu, Guðmundur Gíslason Vilborgarstöðum, að einum fjórða, og Bryngeir Torfason Búastöðum, frá Söndu á Stokkseyri, að fjórða parti. Bryngeir var formaður á bátnum fimm fyrstu árin, sem hann gekk frá Eyjum og fiskaði vel. Ýmsir fleiri voru formenn á honum. Sá sem lengst var með hann var Þórður Þórðarson á Sléttabóli, alls átta vertíðir samfleytt. Frá Eyjum var báturinn seldur til Djúpavogs. Ekki er vitað hver varð eigandi hans þar, né heldur hve lengi hann var þar, en nokkru síðar barst hann til Færeyja, en þar fennir yfir sporin.
Hjálparinn ()

Heimild: Skeggi 51 tbl. 1918 Sjómannablaðið Víkingur 2.tbl.1980- Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.

16.03.2010 23:43

Hjálparinn

Dráttarbáturinn Hjálparinn EyrarbakkaHinum óar útá sjó,

ýtir Jóhann djarfur nóg,

aflakló um ýsumó

aldrei þó hann bresti ró.

Hafs um leiðir Hjálparinn

hraður skeiðar vélknúinn.

Hrannir freyða um hástokkinn,

hvín í reiða stormurinn.

M/b Hjálparinn var 13,20 tonn, byggður á Borgmundarhólmi og seldur, þá nýr árið1907 til Lefolii verslunar á Eyrarbakka. Vélin var af gerðinni Alfa 16-20 hestafla lágþrýstivél. Hlutverk hans var að vera lóðsbátur og til aðstoðar kaupskipunum sem þurftu að athafna sig á Einarshöfn. Þar að auki var Hjálparinn hafður til flutninga til næstu verstöðva svo sem  með salt og annan varning til Vestmannaeyja og Grindavíkur. Áður höfðu tveir gufubátar gengt þessu starfi. Annar var M/S Njáll, en hann slitnaði af legufærum sínum í sunnan fárviðri og rak á land, en þó án þess að brotna og náðist hann á flot vorið eftir. Á undan Njáli var gufuvélbáturinn Oddur við þessi störf til fjölda ára, en hann rak á land í Grindavík árið 1904. Þar var hann að losa vörur frá Eyrarbakka, en átti að því loknu að halda til Reykjavíkur og hafa þar vetursetu.

Verkafólk á Eyrarbakka með sekki úr vöruskipunumÞó Hjálparinn væri minni en fyrirrennarar hans og vélarafl takmarkað, þá reyndist hann furðu vel. Í hjáverkum átti Hjálparinn að stunda fiskveiðar í þorskanet, sem þá voru svo til ný af nálinni, en þegar fram liðu stundir var lítið úr fiskveiðum sökum anna. Á haustinn var Hjálparinn tekinn upp í Skúmstaðalendingu, en þar hafði verið komið fyrir dráttarbraut og gangspili og dráttarbáturinn látinn standa þar inn af sjógaðshliði fram á næstu vertíð.

Þeir sem sigldu Hjálparanum heim frá Borgmundarhólmi þann 18. maí 1907 voru: Sigurjón P Jónsson skipstjóri frá Skúmstöðum, Friðrik Bjarnason og  Vilhelm Jakop Andeas Olsen, vélamaður frá Fredrikshavn og komu þeir til Eyrarbakka 13.júní og unnu þeir á skipinu það árið, en síðasta kaupskip héðan þá um haustið var skonnortan "Svend".

Næsta ár var formaður á Hjálparanum, Jón Sigurðsson í Túni (Síðar Melshúsi) og vélstjóri var Brynjólfur Vigfússon í Mekisteini, en til skams tíma var Jóhann Bjarnason í Einarshöfn með bátinn og eru formannsvísur hans hér að ofan kveðnar á vertíð 1914. Af öðru tilefni kvað Magnús Teitsson þessa vísu:

VerslunarhúsinHjálparinn um fiskafrón

flytur drengi ósjúka.

Buddunum hann Brennu-Jón

biður upp að ljúka.

Tilefnið var að ferjutollur var rukkaður af farþegum með Hjálparanum til og frá Þorlákshöfn og sá um það Jón Ásbjörnsson í Brennu. Tollinum var síðan skilað til ferjubóndans í Óseyrarnesi. Þegar styrjöldin skall á 1914-1916 voru siglingar frá útlöndum aðeins heimilar á ákveðnar tollhafnir og var ákveðið að Reykjavík yrði tollhöfn fyrir Suðurland og lögðust þá Eyrarbakkasiglingar af. Hjálparinn var of lítill til að sinna strandsiglingum með vörur frá Reykjavík og var hann því seldur til Vestmannaeyja til fiskiveiða. Í stríðslok höfðu þau stakkaskipti orðið að Reykjavík hafði alfarið tekið við því hlutverki sem Eyrarbakki hafði áður sem höfuðstaður verslunar og menningar og þess skamt að bíða að saga Eyrarbakkaverslunar tæki enda.

Meira: Brimbarinn

Heimild: Sjómannablaðið Víkingur 2.tbl.1980- Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.
Þennan dag:1764 Konungsveiting: Þorleifur Nikulásson á Eyrarbakka sótti um til konungs að verða vicelögmaður. 1972 Flæddi inn úr sjógarðshliðum. 1986 100 ára afmælisminning Guðmundu Nílsen í kirkjunni. 1987 Vetur gengur í garð.

15.03.2010 00:00

Gletta

SteinskotEinhvern tímann fyrir langa löngu komu menn frá heilbrigðiseftirlitinu til þess að ransaka vatn í brunnum þorpsbúa og reyndist það misjafnlega, til dæmis í Steinskoti, en þar var vatnið talið ónothæft og jafnvel eitrað. Þá sagði Ágústínus (Gústi í austurbænum) það er nú varla bráðdrepandi því hún hefur drukkið vatnið í yfir 90 ár og benti á Guðbjörgu húsfreyju í vesturbænum og hafði hann greinilega ekki mikið álit á mælingum embættismanna.

14.03.2010 00:09

Þennan dag 1968

Fjalar ÁR 22
Á þessum degi: 14. mars 1968  Mb Fjalar ÁR 22 frá Eyrarbakka rak upp í fjöru eftir að vél bátsins bilaði. Engann mann sakaði enda gott veður þegar strandið varð. Gert var við bátinn í fjörunni og hann síðan sjósettur. Fjalar var 49 tonna eikarbátur. Eyrar hf gerðu bátinn út.

11.03.2010 23:33

Kaupfélagið Hekla

Skip á sundinuVerslunarfélagið Hekla var í upphafi hlutafélag stofnað af Gesti Einarssyni (1880-1918) á Hæli, en samvinnufélag var stofnað 26.janúar 1907 og keypti það verslunina sem þá fékk nafnið Kaupfélagið Hekla. Með Gesti voru 15 bændur af Suðurlandi. Framkvæmdarstjóri félagsins var Guðmundur Guðmundsson glímukappi. Ársvelta félagsins var rúm 184 þúsund krónur og skilaði umtalsverðum hagnaði fyrstu árin. Árið 1913 greiddi félagið 11% arð til skuldlausra félagsmanna. Samkeppni á Eyrarbakka var enn nokkuð mikil, en áður hafði Lefolii verslun verið ein og ráðið lögum og lofum í verslunarviðskiptum, en 1.sept.1909 hafði þeirri verslun verið breytt í hlutafélagið Einarshöfn hf til þess aðalega að fríska upp á ímyndina. Árið 1919 keypti kaupfélagið Hekla allar eignir Einarshafnarverslunar hf, þar með talið jarðirnar Einarshöfn og Skúmstaði á 80 þúsund krónur. Þá fluttu samvinnumenn stöðvar sínar í vesturbúðirnar, en aðstaða Kf. Heklu austan Gónhóls var seld.

 Skonortunum var lagt eftir fyrri heimstyrjöld og stærri gufuskip hófu vöruflutninga á milli landa. Höfnin var orðin of lítil.    Það var margt sem var farið að hamla gegn stóru versluninni á Bakkanum og var það ekki síst fyrri heimstyrjöldin, en á styrjaldarárunum voru skipaferðir á Bakkann orðnar strjálar vegna víðsjár stríðsins og vörur af skornum skamti. Eftir stríð voru skipin orðin stærri og flest of stór fyrir hafnarlægið á Eyrarbakka. Þá voru samgöngur orðnar betri til Reykjavíkur og höfn þar í byggingu. Vaxandi samkeppni við smá kaupmennina og samvinnuverslunina varð til þess að draga máttinn úr verslunarrisanum. Danir höfðu séð sæng sína útbreidda, þróun verslunar til framtíðar  yrði ekki umflúin. Heklumenn sem sátu nú einir að bændamarkaðnum austanfjalls hugðu því gott til glóðarinnar.

  Dönsku verslunarhúsin komust í eigu Kaupfélagsmanna  Kaupfélagsmenn áttuðu sig of seint á aðstæðum og sátu nú fastir eins og mús í gildru. Árið 1920 varð mikið verðfall á vörum og fasteignum og sat því félagið uppi með óvinnandi skuldir. Það varð ekki til að bæta stöðuna að bændur fóru í æ meira mæli að sækja til Reykjavíkur sem var í örum vexti með tilkomu hafnar og aukinnar verslunar. Á meðan kaupfélagsmenn börðust í bökkum setti Egill Thorarensen í Sigtúnum upp verslun við Ölfusá (Selfoss) sem var í vegi bænda er komu austan úr héraðinu og gerði það útslagið. Bændaverslunin á Eyrarbakka hrundi síðla árs 1925 þegar Kf Hekla hætti starfsemi. Aftur kom það Reykvíkingum til góða, því þangað urðu sunnlenskir bændur að fara með afurðir sínar fyrst um sinn.

 

Heimild: Árnesingur II Lýður Pálsson  Morgunb. 91 tbl 1914  Þjóðólfur 1-2. tbl 1919

09.03.2010 00:34

Guðmundubúð

Guðmunda NíelsenÁ árunum eftir aldamótin 1900 voru allmargar verslanir á Eyrarbakka, svo sem Verslunin Einarshöfn, Verslunin Hekla, Verslun Andrésar Jónssonar frá Móhúsum ofl. Um 1920 stofnaði Guðmunda Nielsen (1885-1936) verslun í nýbyggðu steinhúsi er hún lét sjálf reisa og húsinu var gefið nafnið Mikligarður. Hún hugðist fara í samkeppni við risan á markaðnum, kaupfélagið Heklu sem þá nýverið hafði tekið yfir verslunina Einarshöfn, hina fornu Lefolii verslun. Verslun Guðmundu lifði aðeins í tvö ár, en þá varð hún gjaldþrota. Eyrarbakkahreppur eignast húsið á stríðsárunum. Fyrir tilstuðlan hreppsins setti Hampiðjan á stofn netagerð í Miklagarði árið 1942 en síðan hófst þar framleiðsla á einangrunarplasti. Eftir að Plastiðjan hf var seld í burtu stóð húsið autt um tíma. Mikligarður komst aftur í eigu Eyrarbakkahrepps eftir að hreppurinn og pönnuverksmiðjan  Alpan hf. höfðu makaskipti á eignum. Við sameiningu sveitarfélaganna færðist Mikligarður til Árborgar. Þar á bæ stóð hugur til að rífa bygginguna, en sem betur fer voru til menn sem töluðu um varðveislugildi þess út frá sögulegu sjónarhorni svo sem Lýður Pálsson safnvörður. Þá varð úr að hlutafélagið Búðarstígur 4 ehf eignast húsið árið 2005 með því skilyrði að gera það upp og hefur Rauða Húsið haft þar aðsetur síðan.  

Mikligarður skommu fyrir aldamótin 2000Guðmunda var einstök hæfileikakona á sinni tíð, safnaði m.a. nótum og uppskriftum, samdi ljóð og gaf út matreiðslubók. þá æfði hún talkór líklega þann fyrsta á Íslandi, sem talaði kvæði í stað söngs. Hún var organisti Eyrarbakkakirkju til fjölda ára. Eftir að verslun hennar varð gjaldþrota hóf hún að reka Hótel í Tryggvaskála við Ölfusá. því næst flutti Guðmunda til Reykjavíkur og stofnaði heimabakarí að Tjarnargötu 3. Guðmunda var afkomandi faktoranna í Húsinu.


Heimild: Morgunbl. 173 tbl 1928 36.tbl.1986 C2 1989 98 tbl.1999 http://husid.com/i-deiglunni/  

Þennan dag:1685, Góuþrælsveðrið, teinæringur fórst á Eyrarbakka með 9 mönnum.

06.03.2010 18:15

Beðið eftir gosi

Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull (1,666m) hefur gosið á sögulegum tíma en síðasta eldgos í jöklinum var árið 1821 til 1823 og þar á undan árið 1612. Síðasta hlaup vegna gosa í Eyjafjallajökli var árið 1822 og fyllti það alla farvegi Markarfljóts. Gos í tindi Eyjafjallajökuls verða á nokkur hundruð ára fresti en þau eru yfirleitt mun minni en Kötlugos. Hermilíkön hafa sýnt að hlaup ú Eyjafjallajökli næðu víðast hvar niður að fjallsrótum aðeins 15-30 mínútum eftir að gos hefst. Hlaup vegna goss í norðvestanverðum GoglekortEyjafjallajökli gæti náð að varnargörðum við Fljótshlíð á 45-60 mínútum. Gert er ráð fyrir að hlaup af þessu tagi fari yfir þá varnargarða sem nú eru milli Fljótshlíðar og Stóru Dímonar og flæmist til vesturs um eldri farvegi Markarfljóts. Margir telja að skjálftavirknin í Eyjafjallajökli að undanförnu sé fyrirboði um  eldgos undir jöklinum.

Heimild: HÆTTUMAT VEGNA ELDGOSA OG HLAUPA FRÁ VESTANVERÐUM MÝRDALSJÖKLI OG

EYJAFJALLAJÖKLI


Þennan dag: 1967 mb. Bjarni frá Dalvík strandar framan við Baugstaðarós. Mannbjörg varð.
Flettingar í dag: 23
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 266957
Samtals gestir: 34349
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:12:41