Færslur: 2012 Nóvember

18.11.2012 23:25

Sú var tíðin,1913

Þetta var árið sem óskabarn þjóðarinnar, Eimskipafélag Íslands braust úr eggi og íslendingar sáu í hendi sér þann möguleika að þjóðin gæti staðið á egin fótum þegar fram liðu stundir, eftir margra alda niðurlægingu undir erlendri stjórn. Nú máttu íslendingar stofna sinn eginn þjóðfána og var það tilhlökkunarefni, jafnvel hér í hálfdanska þorpinu við sjóinn þar sem "dannebrog" blakti ævinlega í hafgolunni til heiðurs konungi vorum Kristjáni IX.

Raflýsingarmálin voru efst á baugi í upphafi ársins 1913. Sveitafundir á Stokkseyri og Eyrarbakka lögðu dálítið fé til ransókna á mögulegri raflýsingu þorpana, en helst kom til greina að virkja Baugstaðarós ella sameiginleg Díselrafstöð á Stóra-Hrauni fyrir bæði þorpin. Kol og olía voru seld á afarverði hér í verslunum og þótti flestum nóg um. Fyrir héraðið þótti það vísa á framfarir þegar mælingum Indriða Reinholt á járnbrautarleiðinni frá Reykjavík austur að Þjórsá lauk og kostnaðaráætlun gerð, en þar var gert ráð fyrir að brautin kostaði 3½ miljón króna. Var frumvarp um járnbrautina lögð fyrir alþingi. Fyrirhuguð brautarleið frá Reykjavík lá um Mosfellsheiði - Þingvelli - niður með Þingvallavatni að austan og niður í Grimsnes, vestur yflr Sogið og niðureftir austan Ingólfsfjalls og yfir Ölfusá hjá Selfossi. Þaðan átti að leggja grein hingað niður á Eyrarbakka, en aðalbrautin héldi áfram beina leið að Þjórsárbrú. Þá hliðarbraut upp Skeið - Ytrihrepp og Biskupstungur til Geysis. Fyrr en varði hófust þó deilur um legu brautarinnar, því sumir vildu að brautin lægi um uppsveitir sýslunar, skemstu leið austur að Þjórsá. Sögðu þá aðrir að þegar bílarnir kæmu yrðu lestar óþarfar. Hér tóku menn sig hinsvegar til og máluðu kirkjuna hátt og lágt. Gestkvæmt var við ströndina, fyrirlesarar með fróðleik og tortryggilegir kaupsýslumenn úr Reykjavík að pranga með byggingalóðir þar í höfuðstaðnum, og svo hinsvegar útlendir betlarar sem gengu á milli manna hér um sumarið, eins og hin síðustu sumur. Þeim var hinsvegar minna fagnað og þóttu afar ógeðfeldir nágungar. Eyrarbakkahreppi var leyfð 6.000 kr. lántaka til nýrrar skólahússbyggingar og 3.450 kr. lán til endurbyggina sjógarða og þá var oddvita falið að selja fangaklefann á Eyrarbakka. Bifreiðar sáust nú ferðast um sunnlenska vegi, sem voru helst til þröngir og misjafnlega greiðfærir hestvagnabrautir. Hér voru byggð 4 íbúðarhús og veglegt barnaskólahús, stórt vörugeymsluhús og eitt hús fyrir fénað og hey - öll úr steinsteypu. Ekkert hús er bygt úr timbri hér á Eyrarbakka þetta sumar. Landsverkfræðingur kom hér til að athuga garðstæði fyrir garði til varnar jakaburði úr Ölfusá. Héðan fór hann út í Þorlákshöfn til að athuga lendingar og undirbúa væntanlegar endurbætur á þeim. Ekkert meira hafði frést af hafnarævintýrinu sem frakkar ætluðu að kosta í þorlákshöfn og höfðu kaupin líklega gengið til baka, því Þorleifur Guðmundsson hafði nú aftur selt Þorlákshöfn félagi einu fyrir 160 þús. kr. Formaður félagsins var P. I. Thorsteinsson, áður á Bildudal. Íbúar á Eyrarbakka og bæjum í kring árið 1913 voru samtals 879 manns.

Skipakomur: Venja var að flagga tveim rauðhvítum fánum (dannebrog) við skipakomur á Eyrarbakka og Stokkseyri. Fánanum danska var því óvenjutítt flaggað hér við ströndina árið 1913. Fyrsta vorskipið  kom 11. apríl, en það var strandferðaskipið "Hólar" með nokkuð af vörum til flestra verslana hér, kom það aftur tvívegis síðsumars. Einarshafnarskip komu tvö um vorið, "Svend" og "Irsa", með vörur til verslunarinnar. Þá kom "Elise" frá Halmstad  til Stokkseyrar með timbur og tvö skip önnur. Annað þeirra "Elin" með vörur til kaupfél. Ingólfur, hafði verið hér fyrir utan alllengi og ekki getað náð höfn vegna brims og storma fyr en í 9. viku sumars. Að áliðnu sumri kom til Stokkseyrar skonortan "Venus", hlaðin kolum til Ingólfsverslunar á Stokkseyri, kom hún aftur með kolafarm snemma hausts. Skonortan "Henry" kom með saltfarm til versl. "Einarshöfn" og "Vonin", seglskip til sömu verslunar, kom einig. "Ingólfur" kom að Stokkseyri og í Þorlákshöfn, til að sækja saltfisk. "Nordlyset" kom með olíu til verslananna hér á Eyrarbakka um miðjan ágúst. "Fanney", saltskip til Ingólfs á Stokkseyri og í Þorlákshöfn komu í sumarlok.  

Atvinna, sjósókn, landbúnaður og verslun: Vetrarvertíðin fór hægt af stað og lítið fiskaðist á miðum Eyrbekkinga í byrjun. Nýjum vélabáti [Búi ÁR 131] var hleypt af stokkunum, er Bjarni Þorkellsson hafði smíðað hér þennan vetur. Var báturinn stór og vandaður. Hann átti Ingólfsfélagið á Stokkseyri, en 23. febrúar slitnaði báturinn upp hér á Eyrarbakkahöfn og rak út í brimgarð, lögðu margir sig í hættu við að bjarga honum og tókst það slysalaust. Þá gerðist það í Gaulverjabæ, að maður gekk á reka, og sá hann þá sílatorfu mikla rétt við land i brimgarðinum, en mikil mergð þorska óð þar ofansjávar, hættu þorskarnir sér of nærri landi og skoluðu bylgjurnar þeim á land. Spurðist þetta út og náðu Gaulverjar í einni svipan 530 stórþoskum. Fengu þeir þar góðan "hlut á þurru landi", en þá tók líka að fiskast á öllum miðum hér við ströndina, þó dró talsvert úr afla hér á heimamiðum vegna gæftaleysis þegar á leið vertíðina sem var einhver sú lakasta fyrir sjósóknara hér. Sumar og haustveiðar urðu með lakasta móti og vart bein úr sjó að hafa og gekk svo fram á vetur. Magnús Gunnarsson frá Brú stofnaði til kramvöruverslunar á Stokkseyri. Andrés Jónsson stofnaði verslun í Kirkjuhúsi hér á Eyrarbakka, hafði áður verið verslunarmaður hjá versl. Ingólfi á Háeyri. Almennt gekk verslun ágætlega sunnanlands. Hey bænda hröktust talsvert í mikilli vætutíð sem gerði eftir sláttinn og brugðu sumir á það ráð að verka súrhey, en er á leið sumarið kom góður þurkakafli sem bjargaði mörgum en heyfengur var frekar rír. Vetrarverslunin var með daufasta móti og umferð lítil. "Nú sést ekki smjörögn fremur en glóandi gull", sagði kaupmaður nokkur.

Andlát: Tvö ung börn á fyrsta ári létust af veikindum sínum.

Menning og íþróttir: Ungmennafélagið á Stokkseyri var mjög virkt á árinu 1913 og hélt þar uppi fjölmennum skemtunum. Þá voru haldnar dansskemtanir í báðum þorpum hér á Eyrum um miðjan Þorra og var þar gnægð matar fram borinn. Sönglistin fékk líka að njóta sín hér við sjóinn, undir stjórn Guðmundu Níelsen. Sumir höfðu mestu skemtan af símahlerun, það var auðvelt fyrir þá sem áttu einkasíma, aðeins þurfti að lyfta tólinu og hlusta. Heldur dró úr íþróttaþáttöku almennt hér á þessu ári. Leikhús, hljómleikar og söngskemtanir voru hinsvegar stundaðar hér yfir vetrartímann og var verkið "Æfintýri á gönguför" m.a. sett upp í Fjölni. Hússtjórnarnámskeið var haldið hér á Eyrarbakka á haustmánuðum. Kensluna hafði á hendi ungfrú Halldóra Ólafsdóttir frá Kálfholti og voru nemendur 9 talsins.

Hamfarir og slys:  Þann 9. og 10. febr´ 1913 var hér afspyrnurok af suðri, gekk sjór mjög á land, svo ekki hafði um langa hríð jafn hátt gengið. Rofnuðu þá sjógarðar víða og sópuðust brott á löngum köflum í grunn niður. Voru menn naumast óttalausir í húsum inni, enda fyltust kjallarar á ýmsum stöðum og varð af tjón nokkurt. Kálgarðar skemdust og til muna. Tjón það er hér varð á Eyrum af sjógangi þessum, var áætlað þúsundir króna, en til allrar hamingju var smástreymt, ella hefði tjónið orðið meira. Rak í þessu flóði tré mikið í hinni svo nefndu Keflavík, sem er smá vogur, sem gengur inní strandbergið milli Þorlákshafnar og Selvogs.  Enskur togari bjargaði áhöfn Guðmundar Hannessonar í Túngu í Gaulverjabæjarhreppi, sem lokaðist úti í brimi og aftaka veðri. Kom togarinn að á Stokkseyri næsta dag. Fór þá Jón Sturlaugsson hafnsögumaður á vélbát sínum útí togarann og tókst honum að ná mönnunum og flytja í land. Í sumarbyrjun varð mönnum hér starsýnt til Heklu og þóttust sjá þar í grend gos mikið hafið. Fóru menn héðan austur, þeir Guðm. verslunarstjóri Guðmundsson, Kjartan Guðmundsson Ijósmyndari og Þorfinnur Jónsson i Tryggvaskála. Riðu þeir yfir Þjórsá á Nautavaði og síðan upp Land að Galtalæk og þaðan með fylgdarmann inn á Fjallabaksleið. Mætti þeim eldgos stórt vestur undir Hrafnabjörgum, austan við Heklu og hraun þar nýrunnið nefndu þeir "Hörpuhraun". Um sumarið fóru kaupmaður Lefolii og J. D. Nielsen austur að eldstöðvunum.

Náttúran og tíðarfarið: Umhleypingasamt var í byrjun ársins 1913 en þegar kom í febrúar urðu veður afar byljótt  svo sá ekki húsa á milli hér á Eyrum. Skóf mjög saman snjóinn i skafla, var ekki fært um veginn öðrum en karlmennum einum. Vepjur sáust upp við Laugarás um miðjan janúar og þótti markvert því fuglar þessir voru nær óþekktir hér austan fjalls, en höfðu sést sumstaðar á flækingi að vetri til og var fuglinn því oft nefndur "Ískráka".  [Um þessa fuglategund skráði P. Nielsen á Eyrarbakka: Haustið 1875 sáust nokkrir fuglar í Grímsnesinu og haustið 1876 var einn (karlfugl) skotinn í Mosvallahreppi í ísafjarðarsýslu. 1. jan. 1877 var einn (kvenfugi) tekinn lifandi í heygarði hér á Eyrarbakka, mjög aðfram kominn af sulti og kulda, og var hann drepinn samdægurs. Í maganum var ekkert annað en fáeinir smásteinar. Snemma í janúar 1879 kom hann í stórhópum og hélt sér um tíma við sjó hér sunnanlands. 2. febr. 1882 sáust 5 í Ölfusinu og var einn skotinn. 7. des. 1889 var einn (kvenfugl) skotinn hér við Eyrarbakka. Ennfremur var einn skotinn í Ölfusinu 17. febr. 1895 og seint í febrúar s. á. sáust þrír við Eyrarbakka. Áttunda mars 1901 sást einn við Stokkseyri og í miðjum desember s. á., hélt lítill hópur til við Gamlahraun. 6. marz 1907 var ungur karlfugl skotinn við Eyrarbakka og 17. jan. 1912 fanst einn með brotinn væng hér í þorpinu, hefir að líkindum flogið á símaþræðina. Norðanlands sést ísakrákan einstaka sinnum í janúar og febrúar... ]- Allan febrúar lágu á sífeldar hafáttir, sandbyljir, sjávarflóð og hregg og hrið, frostlaust þó. Fólki varla verið útkomandi fyrir ólátum í veðrinu og Spói kvað:

Ennþá Kári óður hvín,

æðir sjár á löndin. -

Ógna bára yfir gín,

Er í sárum ströndin.

Snjóalög voru mikil þegar vetur kvaddi og mesta frost var -18°C. Hettumáfurinn verpti hér í fyrsta sinn, gerði sér hreiður við tjörn hjá Stokkseyrarseli, en vorið var kalt og þurt og síðan tók við vætusumar og haustið rosasamt. Í nóvember hafði snjóað mikið milli fjalls og fjöru og hagbann orðið. Skömmu fyrir jól gerði ofsaveður mikið af útsuðri svo hús léku á reiðiskjálfi.  14 álna langan hval (andarnefju) rak á Skipafjöru, skamt fyrir vestan Baugstaðakamp svonefndan. Úr heimi skordýranna var fiskiflugan hér almennust.

Heimild: Suðurland 1913, Lögberg 1913 gardur.is, skátavefurinn. Skjal/Appendix F Population in Eyrarbakki 1910-1970

04.11.2012 22:40

Sú var tíðin,1912

Þetta gerðist hér við sjóinn árið 1912, árið sem Friðrik VIII danakonungur var til moldar borinn og Vilson varð forseti bandaríkjanna. Brauðgerðarhússfélagið var stofnað hér á Bakkanum á þessu ári. Hafist var handa við að draga að efni til byggingarinnar, sem reisa átti á lóð kaupfélagsins "Hekla", húsið var steypt og skildi heita "Skjaldbreið". Annars dró fátt til tíðinda á Eyrarbakka fyrstu mánuði þessa árs þar til kom hið sólblíða og söngljúfa vor. Menn veltu fyrir sér komu sjaldgæfra fugla hér um slóðir sem nefndust svartþrestir og starrar og álitu margir þá vera nýja landnema og enda varð sú raunin. Lífið gekk svo sinn vanagang við fiskiveiðar þegar á sjó gaf. Netatjón var þó allnokkuð í óveðrum er yfir gengu á útmánuðum.

Hlutafélag til hafnargerðar í Þorlákshöfn og annara fyrirtækja á suðurlandi, var stofnað í Frakklandi ("Sosiété d' Entreprise en Islande"). Við félagsmyndun þessa kváðust vera riðnir tveir stórbankar franskir ("Banque Francaise" og "Banque Transatlantique") og einhverjir fleiri stóreignamenn. Brillouin konsúll var framkvæmdarstjóri þessa fyrirtækis hér á landi, en þann 21. janúar þetta ár [1912] seldi Þorleifur á Háeyri frökkum Þorlákshöfn fyrir 432.000 kr.  Um þetta samdi Kjói:

Ef að Frakkar eignast hér

okkar litlafingur,

að hundrað árum hvar þá er

Höfn og íslendingur?

Hugmyndin var að höfnin yrði miðstöð fyrir ýms iðnaðarfyrirtæki; þar áttu að rísa upp verksmiðjur, knúðar rafmagni, til málmbræðslu o. fl. Hlutafélagið hafði umráð yfir 9 fossum á Suðurlandi, sem það sumpart var eigandi að, og sumpart hefði tekið á leigu og hugðust virkja, og leggja járnbrautir upp til sveita, en íslensk lög [fossalögin 1907] voru þó þrándur í götu fyrir þessa frakknesku auðjöfra. Helst sáu málsmetandi menn þessu til foráttu að mundi hefta viðgang Reykjavíkur til framtíðar. En á meðan um þetta var þráttað hófust miklar hafnarframkvæmdir í Reykjavík enda og mikil uppgangsár þar. Verktaki að hafnargerðinni var N. C. Monberg,( Niels Christensen Monberg) danskt fyrirtæki.  

Ákveðið var að sýsluvegur mundi liggja í gegnum Stokkseyrarkauptún, þar eð hann lá að því báðum megin. Óseyrarnesferju var hinsvegar neitað um styrk úr sýslusjóði. Um vorið varð vart við snarpan jarðskjálfta og hristust húsin hér duglega. Vandræði urðu með símtalsflutning til Reykjavíkur, en línan þangað annaði ekki þeim 18 stöðvum sem á henni voru allt austur til Vestmannaeyja og kom það versluninni hér brösuglega um kauptíðna. Hækkandi steinolíuverð var bagaleg þorpsbúum sem notuðu eingöngu steinolíu til lýsingar og hitunar. Danska steinolíufélagið DDPA átti mest ítök á íslenskum markaði á þessum tíma, en hækkunina mátti m.a. rekja til vaxandi eftirspurnar erlendis. Var þetta til að vekja upp hugmyndir um raflýsingu hér á Bakkanum með því að virkja Skipavatn, sem Baugstaðaá rennur úr ásamt nálægum vötnum og lækjum. Rangárbrúin var vígð um haustið. Hún var fyrsta járnbrúin hérlendis sem var alíslensk smíði, nema efnið og hugvitið sem kom erlendis frá, en landsmiðjan í Reykjavík sá um verkið. (Rangárbrúin var 137 álnir á lengd og jafnbreið Ölfusárbrúnni gömlu, eða rúm vagnbreidd. Skömmu síðar var lokið við steypta bogabrú yfir Hróarslæk og var hún að öllu leiti íslensk). Um haustið var gistihúsinu hér lokað og það hætt störfum. Var innbú og munir þess seldir á uppboði. Skipt var um glugga í kaupmannshúsinu og kom mönnum á óvart að viður húsins var alveg laus við fúa í þessu 200 ára gömlu húsi, en viðurinn er sagður upprunnin frá Pommern, [hérað í Póllandi/Þýskalandi].

Skipakomur og skipaferðir: Strandbáturrnn "Austri" átti að koma við á Stokkseyri á leið sinni til Reykjavíkur í fyrstu ferð þessa árs. Átti kaupfélagið Ingólfur allmiklar vörur í bátnum. En Austri gerði sér lítið fyrir og fór hér framhjá aðfaranótt þess 11. apríl. Snemma í maí komu "Svend" og "Vonin", til Einarshafnarverslunar, og timburskip til kaupfél. Ingólfur á Háeyri. Til Stokkseyrar kom "Skálholt"  frá útlöndum með vörur til Ingólfs, og timburskip til sama aðila nokkru síðar. Strandferðaskipið "Austri" kom hér við  á austurleið með dálitinn vöruslatta, og Perwie kom síðast vorskipa með brúarefni í Rangárbrúnna innanborðs, en því var ekki skipað hér upp eins og vænta hefði mátt. Perwie kom svo fyrst haustskipana hér við, en ekki komst það til Stokkseyrar sökum brims, en seglskipið Venus kom þar síðla í september með vörur til kf. Ingólfs. Í oktobermánuði strandaði kaupskipið "Svend" frá Einarshafnarverslun í svonefndri Skötubót, nálægt Þorlákshöfn og laskaðist mjög. Menn björguðust ekki fyr en morguninn eftir, ómeiddir allir nema skipstjórinn, sem fór úr axlarlið. Svend hafði lengi haustsins legið hér úti fyrir og beðið færis, en ekki gaf inn á höfnina sökum brims. Var þetta strand  skaði fyrir Einarshafnarverslun því mikið af nauðsynjavörum var í skipinu.

Franskt fiskiskip rak logandi að landi framundan Þykkvabæ. Liðaðist skipið sundur í brimgarðinum.    Færeysk fiskiskúta strandaði í Landeyjum. Annars var talsvert um skipatjón og mannskaða í sunnlenskum verstöðvum, en þó ekki hér. Þess má einnig geta að hið fræga risaskip "Titanic" fórst þetta ár.

Atvinna, viðskipti, landbúnaður og fiskveiðar: Jón Helgason prentari hóf að gefa út "Heimilisblaðið" Jón Helgason var að góðu kunnur, síðan hann gaf út blaðið "Fanney" með Aðalbirni Stefánssyni, en auk þess starfaði hann í Prensmiðju Suðurlands hér á Eyrarbakka. Jón Jónatansson alþm. á Ásgautsstöðum tók við ritstjórn vikuritsins Suðurland sem hér var gefið út. Hér var kosinn sr. Gísli Skúlason í framkvæmdastjórn Sunnlenskrar Lýðháskólastofnunar. Smjörsala rjómabúsins í Sandvíkurhreppi gekk framar vonum, en til þess hafði verið stofnað árið áður. Vetrarvertíðin fór rólega af stað á Bakkanum enda afli tegur á miðunum. Vélarbaturinn " Þorri " frá Stokkseyri, formaður Jón Sturlaugsson hafnsögumaður, stundaði vertíðina frá Vestmannaeyjum. Um miðjan mars mokaflaðist hér við ströndina, þá er gaf á sjó. Er kom fram í apríl fiskaðist lítið sem ekkert í net en reitingur á lóðin. Í maí barst hinsvegar mikill afli á land, en svo kvaddi þorskurinn miðin og ýsan kom í staðinn. Þegar vertíð lauk var hún talinn í meðalagi góð. Kauptíðin var umfangsmikil að venju og samkeppnin hörð. Verslun Þorleifs Guðmundssonar, "Dagsbrún" seldi verslun sína Kaupfélaginu Ingólfi á Stokkseyri á haustmánuðum en fyrir þeirri verslun fóru m.a. Helgi Jónsson á Stokkseyri og Jóhann V. Daníelsson Eyrarbakka. Þorleifur hafði sett upp verslunina í Regin nokkrum mánuðum fyr og auk þess samnefnda vefnaðarvöruverslun í Reykjavík. Heyskap lauk fyrir miðjan september og var heyfengur í besta lagi og nýtingin ágæt. Tilkoma sláttuvéla mun hafa létt mönnum mjög heyskapartíðina. (um 100 sláttuvélar voru til á Suðurlandi á árinu 1912) Sláturfé reyndist með rýrara móti þetta haustið. Fisklaust var um haustið, gæftarlítið og beitulaust þar eða síldin gekk ekki þetta sumarið. Verslunin hafði á árinu verið fremur óhagstæð, einkum vegna mikilla verðhækkana á erlendum vörum. Iðnaður var enn lítill og fábreyttur hér í sýslunni sem og annarstaðar, en helst voru það rjómabúin og ullarþvottarstöðin við Reykjafoss.

Fólkið: Lefolii stórkaupmaður dvaldi hér um sumarkauptíðina eins og hann átti vanda til. Þorlelfur Andrésson steinsmiður, sem mörgum var að góðu kunnur, dvaldi einnig hér við pípugjörð í Mundakoti. Kofoed Hansen, skógræktarstjóri, var hér á ferð síðsumars, hafði farið einsamall Vatnajökulsleið. Jóhanna Briem, dóttur Ólafs Briems þáverandi alþm. á Álfgeirsvöllum í Skagafirði, fékk kennarastöðu við Barnaskólann á Eyrarbakka. Hún tók við af frænda sínum cand. Jóhann Briem frá Hruna, sem þjónað hafði stöðunni en var nú skipaður prestur á Melstað í Miðfirði.[ Konan hans var Ingibjörg Jóna Ísaksdóttir verslunarmanns frá Eyrarbakka.] Jóhanna kenndi aðalega íslensku, dönsku, ensku og reikning og stúlkum hannyrðir.  P. Níelsen stundaði vísindalegar athuganir á fuglaflóru landsins og keypti til þess fuglhami af veiðimönnum. Brillouin, fyrv. ræðismaður, frakka kom með botnvörpuskipi frá Frakklandi til Þorlákshafnar, hélt þaðan til Reykjavíkur.

Íþróttir: Hinir víðfrægu glímumenn í U.M.F. Stokkseyrar skoruðu á eyrbekkska glímukappa í U.M.F.E. og átti keppnin að fara fram 27. janúar, en Eyrbekkingarnir höfnuðu áskoruninni. Héldu Stokkseyringar því veglega glímusýningu á Stokkseyri þess í stað. Ungmennafélag var á ný stofnað í Saudvikurhreppi, endurreist af rústum eldra félags. Stofnendur 47. Íþróttamót ungmennafélaganna hér austanfjalls var haldið að Þjórsártúni. Í glímu vann Páll Júníusson á Seli í Stokkseyrarhreppi skjöldinn.

Menning: Sjónleikir og skemtanir voru haldnar á Stokkseyri snemma á árinu og fram á vor við góðan orðstýr, en ágóðinn rann m.a. í samskot vegna drukknaðra sjómanna af Suðurnesjum. Verkamannafélagið Báran hélt tambólu til að efla styrktarsjóð félagsins og Kvenfélagið safnaði fyrir málningu á kirkjuna. Nokkuð var um skemtanir í Fjölni yfir jól og áramót.

Slys og hamfarir: Oft lá við að slys yrðu hér á götunum vegna myrkurs. Um miðjan vetur var riðið ofan á gangandi mann í myrkrinu, meiddist hann talsvert og var lengi óverkfær. Konur tvær voru á gangi á götunni eitt kvöld, mættu þeim tveir menn á harða hlaupum og ruddu um koll annari konunni svo hún hentist niður á götuna og meiddist nokkuð. Mánudaginn þann 6. maí. kl. um 6 að kveldi, varð vart við jarðskjálftakipp á Stokkseyri og Eyrarbakka. Stóð hann yfir um ½  mínútu og titruðu hús hér nokkuð; skemdir urðu þó engar hér en hinsvegar stórtjón í austursveitum, svo sem víða á Rángárvöllum og efri hreppum þar sem bæjarhús hrundu til grunna. Öllum bar saman um að þessi jarðskjálftakippur hafi riðið yfir eins og alda, frá austri til vesturs, eða eins og jafnan við svokallaðan "Suðurlandsskjálfta". Eftirkippir fundust víða í austursveitum. Lík rak við Einarshöfn af færeyskum sjómanni að talið var og jarðsett hér. Kona fannst örend í pytti við túnið í Eyði-Sandvík, var hún þaðan.

Andlát: Guðni Jónsson í Einarshöfn. Kona hans var Sigríður Vilhjálmsdóttir. Guðlaug Einarsdóttir, kona Þorfinns Jónssonar gestgjafa Jónssonar í Tryggvaskála við Ölfusárbrú , en hún var vel þekkt af Árnesingum flestum. Þorfinnur seldi þá Tryggvaskála ásamt slægjulandi og veiðirétti í Ölfusá en þau höfðu búið þar frá 1901. Ungfrú Sólveig Thorgrímsen í Reykjavík, dóttir Guðmundar Thorgrímsen, er lengi var verslunarstjóri hér á Eyrarbakka. Ísak Jónsson í Garðbæ lést af krabbameini. Hann var verslunarmaður við Lefolii verslun í nær 40 ár. Fyrri kona hans var Guðríður Magnúsdóttur frá Brandshúsum í Gaulverjabæjarhreppi, en seinni kona hans var Ólöf Ólafsdóttir, frá Árgilsstöðum í Hvolhreppi. Jón Jónsson í Einarshöfn, háaldraður bóka- og fróðleiksmaður og var hann mörgum að góðu kunnur. Margrét Eiríksdóttir, gömul kona á Litlu-Háeyri á Eyrarbakka. Sonur hennar var Jens S. Sigurðsson bóndi þar. Þórdis Þorsteinsdóttir frá Litlu-Háeyri en maður hennar var Jón bóndi þar Hafliðason. Sigurður Einarsson, tómthúsmaður hér á Eyrarbakka, hné niður máttvana úti við, var hann borinn heim og andaðist skömmu síðar. Lét eftir sig konu og 1 barn í ómegð. Þórunn Þorvaldsdóttir frá Eimu á Eyrarbakka, 84 ára, maður hennar var Guðmundur Þorsteinsson járnsmiður, var hún fædd í Króki í Grafningi 1828. Hér gerðu þau Þórunn og Guðmundur bæ á sandsléttu í landi Stóru-Háeyrar og kölluðu Eimu. Var það snotur bær, að því er þá þótti, en nú löngu horfinn. Ræktuðu þau þar matjurtagarða meiri en þá var títt og vörðu þá og bæinn með sterkum grjótgörðum. Því hætt var við sjávarflóðum meðan enginn var sjógarður þar fyrir framan. Guðmundur var hagleiksmaður, var hann sá fyrsti hér, sem smíðaði blikkbrúsa undir steinolíu. Ekkjan Guðríður Sæmundsdóttir að Foki í Hraunshverfi, hún var við 79 ára aldur. Jón Árnason í Þorlákshöfn, var hér vel kunnur, sonur Magnúsar Beinteinssonar hins ríka í Þorlákshöfn. Kona hans var Jórunn Sigurðardóttur frá Skúmsstöðum. Hallbera Petrína Hjörleifsdóttir frá Litlu Háeyri 8 ára. Nokkur ung sveinbörn dóu einnig þetta ár.

Tíðarfarið: Veturinn í upphafi árs var mildilegur og blíður sunnlendingum. Norðan og NV stormar voru ríkjandi í byrjun mars, en snjólaust þó og fljótt kom góðviðrið aftur. Í uppsveitum var eitthvað um snjókomu á útmánuðum. Dálítið hret gerði í apríl byrjun, en með sumardeginum fyrsta kom blíðan og gras tók að grænka. Í sumarbyrjun og frameftir var hún enn sama sólarblíðan og brakandi þurkar. Í byrjun ágúst kólnaði og gránaði niður undir kamba. Um sumarlok lá mikið misturloft yfir og var eldgosum í ameríku um kennt. Haustrosinn sunnlenski tók svo völdin en fyrri hluti vetrar var yfirleitt hægviðrasamur.

Heimild: Suðurland 1912, Reykjavík 1912. http://gummiste.blogcentral.is/ Wikipedia. Garður.is 

  • 1
Flettingar í dag: 23
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 266957
Samtals gestir: 34349
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:12:41